Fara á efnissvæði
06. janúar 2020

Rafíþróttir hasla sér víða völl

Íþrótta- og ungmennafélög hafa í auknum mæli tekið að bjóða upp á rafíþróttir í starfi sínu. Þau eru mislangt komin á þeirri leið. En hvaða félög eru að innleiða rafíþróttir, hvernig á að fara að því og er þetta gott fyrir börn? 

Íþróttafélagið Ármann í Reykjavík er komið lengst þeirra félaga sem bjóða iðkendum upp á skipulagðar æfingar í rafíþróttum. Þar eru fjórir þjálfarar og standa æfingar til boða iðkendum 10–15 ára. Námið er hluti af samstarfi Ármanns við Rafíþróttaskólann sem útvegar kennsluefnið. Jafnframt er boðið upp á rafíþróttir hjá fleiri félögum svo sem KR og Fylki í Reykjavík auk Sindra á Höfn í Hornafirði.

 

Sameina börnin í sveitinni

„Við horfum á rafíþróttir öðru fremur sem tækifæri fyrir börnin til að hittast, unga krakka í Hornafirði sem þurfa vettvang til að spila saman í stað þess að hver geri það í sínu horni,“ segir Sæmundur Jón Jónsson, formaður rafíþróttadeildar Ungmennafélagsins Sindra á Höfn í Hornafirði. Ætla má að félagið sé komið næstlengst í innleiðingu á rafíþróttum í starfi sínu hér á landi. Sæmundur segir að félagsmenn vinni þetta að mestu sjálfir og að það sé ekki langt á veg komið.

 

 

„Það voru kennarar við grunnskólann hér á Höfn sem settu sig í samband við Rafíþróttasamtökin síðla sumars og upp úr því stofnuðum við rafíþróttadeildina í september. Nú eru tíu til fimmtán iðkendur í deildinni sem spila tölvuleiki innan skipulags íþróttafélags, með umgjörð og þurfa að mæta á ákveðinn stað á ákveðnum tíma,“ segir Sæmundur sem er faðir eins af iðkendunum.

„Strákurinn minn er 13 ára og hafði prófað körfubolta, fótbolta og fimleika en fann sig ekki í neinu. Hann tók skólabílinn heim og fór í tölvuna. Mig langaði mikið til að hann æfði með fleiri strákum og stelpum í sömu stöðu og fengi þjálfun hjá fullorðnum einstaklingi sem kynni til verka. Af þeirri ástæðu bauð ég fram aðstoð við að koma deildinni á laggirnar hér í Hornafirði. Æfingarnar í rafíþróttadeildinni eru eins og æfingar annarra deilda. Hann fer á þær tvisvar í viku, tvær klukkustundir í senn. Þjálfarinn talar líka við iðkendur eins og í öðrum greinum um mikilvægi hvíldar, næringar og svefns. 

Hann hefur meðal annars talað við þau um æfingar og að þau nái ekki árangri ef þau æfi of mikið. Það sama á við um tölvuleikjaiðkun og því hangir pilturinn minna í tölvunni en áður,“ segir Sæmundur um tölvuleikjaiðkun sonar síns. Æfingum er skipt í tvo hluta hjá rafíþróttadeild
Sindra. Yngri börnin spila League of Legends en ungmennin fá að spila Counter Strike og álíka leiki. 

„Við pössum okkur á því að ekkert sé gert í rafíþróttadeildinni sem er bannað hjá öðrum deildum. Þjálfarinn talaði við krakkana strax í upphafi vetrar og sagði orkudrykki og rafrettur á meðal þess sem bannað væri á æfingum auk þess að fræða þau um áhrif og skaðsemi þessa,“ segir Sæmundur. 

Félagsleg áhrif af rafíþróttum geta verið jákvæð, að sögn Sæmundar. Iðkendur kynnist þvert á bekki í grunnskóla Hafnar. „Í haust flutti hingað fjölskylda frá Póllandi. Sonurinn talaði aðeins pólsku. Annar þjálfaranna okkar í rafíþróttadeildinni kennir í grunnskólanum og bauð drengnum að koma á æfingar. Hann hafði áhuga á því og hefur eignast vini þar. Rafíþróttir geta því hjálpað til við aðlögun fólks að nýju samfélagi,“ segir Sæmundur.

 

Iðkendur gera styrktaræfingar

Iðkendur hjá Ármanni voru til að byrja með á aldrinum 10–15 ára. Iðkendum er skipt í þrjá hópa eftir aldri og bekkjum. Í fyrsta hópi eru iðkendur í 5.– 6. bekk, í öðrum hópi iðkendur í 7.–8. bekk og í þriðja hópnum nemendur í 9.–10. bekk. Iðkendur eru nú orðnir rúmlega
sjötíu, bæði strákar og stelpur. Í skoðun er að bjóða upp á sérstakt námskeið fyrir börn og ungmenni með sérþarfir eða fatlanir.

 

En hver eru fyrstu skref íþrótta- og ungmennafélaga sem vilja fræðast betur um innleiðingu rafíþrótta í starfi félagsins eða skoða möguleikann á að bjóða upp á íþróttina?

„Við einsettum okkur að gera þetta almennilega og bjóða upp á víðtækt nám í stað þess að búa til sérstakt lið. Við erum í samstarfi við Rafíþróttaskólann og keyptum allt kennsluefni af þeim. Það er mjög gott. Við erum því með námsskrá og gott efni til að vinna út frá. Við leggjum áherslu á að félögin kaupi ráðgjöf hjá Rafíþróttaskólanum. Þau eru með mjög flott námsefni þar,“ segir Jón Þór Ólason, framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Ármanns.

 

Starfið hjá Ármanni kom á óvart

„Það var hentugast fyrir félagið að fá okkur í Rafíþróttaskólanum til að vinna saman að því að koma á laggirnar rafíþróttadeild innan félagsins. Þar prófum við hugmyndafræðina okkar, finnum hvað virkar og hvað ekki. Þetta hefur verið mikið lærdómsferli á báða bóga,“ segir Arnar Hólm Einarsson, yfirþjálfari rafíþróttadeildar Ármanns. 

 

Hann mælir með því að þau íþrótta- og ungmennafélög sem hafa áhuga á að fræðast um rafíþróttir og skoða að koma á laggirnar rafíþróttadeild setji sig í samband við Rafíþróttaskólann. 

„Við veitum ráðgjöf og hjálp við að finna búnað og hvernig gott sé að hafa uppsetningu. Reynsla okkar, þekking og námsefni geta hjálpað félögum til að koma sér af stað og búa til öflugt starf. Það er skiljanlegt að ennþá séu fordómar í samfélaginu í garð tölvuleikja, en núna þurfum við að sætta okkur við þær breytingar sem hafa átt sér stað og viðurkenna tölvuleiki sem áhugamál og íþróttir. Það þarf að bjóða upp á eins félagslegt, heilbrigt og öruggt umhverfi og hægt er fyrir börn og ungmenni. 

 

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ, síðasta tölublaði ársins 2019. Blaðið er hægt að lesa allt á vefsíðu UMFÍ, www.umfi.is

Lesa Skinfaxa