Fara á efnissvæði
21. febrúar 2024

Rakel Másdóttir: Íþróttir fyrir alla


„Ég legg mikla áherslu á að ungmenna- og íþróttastarf eigi að vera fyrir alla og ég veit að það eru tækifæri til að gera betur í þeim efnum,“ segir Rakel Másdóttir. Hún situr í varastjórn Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) og var kosin í varastjórn UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ í fyrrahaust. 

Rakel ræðir í viðtali í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, um þau málefni sem henni eru hugleiknust  og hverjar helstu áskoranir eru að hennar mati. Hún segir málefni sjálfboðaliðans og inngilding í starfi íþróttafélaga henni hugleiknust. Huga verði vel að sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar og leita leiða til að ná til enn fleiri. 

„Sjálfboðaliðastarf getur gefið fólki gríðarlega margt þó að það sé ekki í formi launa,“ segir hún.  

En hverjar eru helstu áskoranir UMSK í dag og á komandi árum? 

„Það verður ávallt áskorun UMSK að þjónusta fjölbreyttan hóp aðildarfélaga. Aðildarfélög UMSK eru mörg og fjölbreytt. Sum félög eru að stíga sín fyrstu skref en önnur hafa starfað til fjölda ára og hafa mikinn fjölda iðkenda. Félögin hafa jafn ólíkar þarfir og þau eru mörg en mikilvægt er að UMSK geti þjónustað þau öll. Þetta má gera með reglulegum samtölum við aðildarfélögin og með því að vera vel upplýst um þarfir þeirra og væntingar til UMSK.“ 

Hvaða veganesti frá UMSK nýtist þér best í störfum fyrir UMFÍ? 

„Í störfum mínum fyrir UMSK hef ég fengið að kynnast stjórnsýslunni að baki stjórnarstörfum almennt. Þá hef ég fengið dýpri skilning á það hvað félög eins og UMSK og UMFÍ gera fyrir aðildarfélög og iðkendur innan hreyfingarinnar,“ heldur Rakel áfram. 

„Ég hef skilning á störfum aðildarfélaga eins og UMSK og þörfum þeirra sem á eftir að nýtast mér vel. Jafnframt hef ég starfað fyrir Íþróttafélagið Gerplu til fjölda ára og hef góðan skilning á rekstri íþróttafélaga og þörfum þeirra. Ég tek þakklát við starfi í varastjórn UMFÍ og hlakka til að leggja mitt að mörkum þar. Ég er viss um að reynsla mín í fyrri störfum komi að notum og mun starfa fyrir UMFÍ af heilindum og áhuga,“ segir Rakel að lokum.

 

Rætt er við Rakel og fleira stjórnarfólk í Skinfaxa. Viðtölin má öll lesa í blaðinu, sem er aðgengilegt á www.umfi.is

 

NÝJASTA TÖLUBLAÐ SKINFAXA

Blaðið er aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum og sent til áskrifenda. Blaðið er líka aðgengilegt á miðlum UMFÍ.

Rafræn útgáfa Skinfaxa er mjög aðgengileg og gott að lesa blaðið bæði á umfi.is og issuu.
 
Lesa Skinfaxa á umfi.is
Lesa Skinfaxa á issuu.com
 
Ef þú vilt koma einhverju á framfæri sem á erindi við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna þá er um að gera og senda okkur línu á umfi@umfi.is.

Þú getur líka smellt á blaðið hér að neðan og lesið það á umfi.is.