Rán sæmd starfsmerki UMFÍ
Rán Kristinsdóttir hlaut á héraðsþingi Héraðssambands Snæfells- og Hnappadalssýslu í gærkvöldi starfsmerki UMFÍ fyrir mikið og óeigingjarnt starf fyrir íþróttahreyfinguna í Snæfellsbæ. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, afhenti Rán starfsmerkið.
Rán hefur verið formaður ungmennafélagsins Víkings, Ólafsvíkur síðan árið 2014. Rán hefur lagt mikla vinnu í að gera starf ungmennafélagsins öflugra og betra. Hún hefur einnig staðið fyrir Snæfellsjökulshlaupinu ásamt eiginmanni sínum, Fannari Baldurssyni. Snæfellsjökulshlaupið var fyrst haldið árið 2010 og hefur það vaxið með hverju árinu. Árið 2017 var metþátttaka í því. Snæfellsjökulshlaupið er um 22 km frá Arnarstapa yfir Jökulháls og til Ólafsvíkur.
Rán er mikil áhugamanneskja um heilbrigt líferni og hreyfingu. Hún hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum sem tengjast hreyfingu og hefur m.a. átt frumkvæðið að því að stofna skokkhóp fyrir íbúa bæjarins þar sem hún fer með þá að hlaupa/skokka ýmsar vegalengdir um Ólafsvík. Þá hefur hún líkka verið með gamlárshlaup á gamlársdag.