Rauði krossinn með ókeypis vefnámskeið í skyndihjálp
Rauði krossinn býður upp á stutt og hagnýt vefnámskeið án endurgjalds fyrir þá sem vilja læra skyndihjálp en hafa lítinn tíma til þess.
Námskeiðin eru bæði haldin fyrir fólk sem hefur aldrei lært skyndhjálp en líka þá sem vilja rifja hana upp. Hægt er að taka námskeiðið hvar og hvenær sem er og ekki þarf að klára það í einum rykk.
Námskeiðið tekur um 2-3 klukkustundir. Þótt ekki þurfi að klára það allt í einu er nauðsynlegt að ljúka því innan tveggja vikna frá skráningu.
Á námskeiðinu er fjallað um 13 ólík viðfangsefni skyndihjálpar og mikilvægi þess að hjálpa fólki í neyð.
Það sem farið er yfir
Grundvallaratriði skyndihjálpar og hegðun á vettvangi.
- Losun aðskotahlutar úr hálsi
- Hvernig á að bregðast við hjartastoppi með endurlífgun og notkun á hjartastuðtæki.
- Einkenni og helstu viðbrögð við alvarlegum bráðum veikindum eins og ofnæmi, öndunarerfiðleikum, brjóstverk/hjartaáfalli, slagi, sykurfalli og flogi.
- Hvernig veita skal skyndihjálp vegna áverka eins og blæðinga, bruna, beinbrota og áverka á höfði.
Verkleg þjálfun er nauðsynlegur hluti af námi í skyndihjálp, til þess að ná góðum tökum á henni og öðlast sjálfstraust til að veita fólki aðstoð í neyð. Mælt er með því að allir sem taka vefnámskeiðið skrái sig á verklegt námskeið hjá Rauða krossinum sem fyrst.