Fara á efnissvæði
09. apríl 2018

Rekstur íþróttahéraðsins UMSS styrkist

Ingibjörg Klara Helgadóttir, nýkjörinn formaður Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS) og Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, skrifuðu í morgun undir samning á milli félagsins og sveitarfélagsins.

Samningur sem þessi er nýlunda í Skagafirði og hefur verið unnið að honum um nokkurra ára skeið.

Með samningnum skuldbindur sveitarfélagið sig til að styrkja UMSS árlega um ákveðna upphæð. Upphæð styrksins er ákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs. Styrkurinn er eingöngu ætlaður til að styðja barna- og unglingastarf í Skagafirði og við úthlutun verður gætt jafnræðis milli drengja og stúlkna.

Stjórn UMSS úthlutar styrknum til aðildarfélaga sinna eftir þeim reglum sem hún mótar sér og byggðar eru á mati á faglegu starfi þeirra. Fjárveitingar til aðildarfélaga UMSS eru háðar því að félögin vinni eftir þeim siðareglum, viðbragðsáætlunum gegn ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi og áreitni sem UMSS setur sér og standi reglulega fyrir fræðslu um þessi mál fyrir sína félagsmenn.

Í samningnum segir orðrétt: „Mikilvægt er að félögin sýni fram á að farið sé eftir jafnréttisáætlunum og jafnréttislögum í starfi sínu.“

Stjórn UMSS og fulltrúar sveitarfélagsins munu eiga með sér formlega samráðsfundi tvisvar á ári, að hausti og vori.