Fara á efnissvæði
18. júní 2022

Reynt að svíka fé út úr íþróttafélögum

UMFÍ varar forsvars- og starfsfólk íþrótta- og ungmennafélaga við svikapóstum sem netsvikahrappar eru að senda þessa dagana í þeim tilgangi að stela af íþróttafélögum.

Eins og áður eru svikapóstarnir í formi tölvupósta sem líta út mjög líkt og tölvuskeyti frá formanni eða framkvæmdastjóra félaga og eru þeir sendir gjaldkerum eða öðrum starfsmönnum félaga sem svikahrapparnir telja að hafi prókúru fyrir reikningum.

Nýtt verklag

Nú er að ganga svikapóstur sem í segir að forráðamaður félaga hafi pantað íþróttahluti í Þýskalandi. Eins og áður er sagt liggja á að móttakandi millifæri tiltekna upphæð vegna kaupanna yfir á erlendan reikning.

Besta leiðin er að gjaldkeri, fjármálastjóri eða hver sá sem fær póst í nafni formanns eða framkvæmdastjóra félags, hringi í viðkomandi og kanni hvort hann hafi sent skeytið. Það tekur enga stund OG getur komið í veg fyrir mikið tjón.

Svikapóstar hafa áður verið sendir starfsfólki íþrótta- og ungmennafélaga. Upphæðirnar sem þar er óskað eftir að verði millifærðar voru frá nokkuð hundruð þúsund krónum og upp á nokkrar milljónir króna sem óskað var eftir að sendir yrðu á reikninga í Bretlandi og Ítalíu.

Meðfylgjandi er raunverulegt dæmi um einn slíkan póst sem verið er að senda þessa dagana þar sem beðið er um millifærslu á þýskan bankareikning. Eins og sjá má er allt skeytið óaðfinnanlegt nema rétt í lokin.

 

Svindl sem þetta heitir fyrirmælafölsun (e. CEO-fraud) þar sem yfirmaður fyrirtækis eða félags biður um millifærslu á fjármunum á erlenda bankareikninga.

Mikilvægt að tilkynna svikin

Bankar hafa sömuleiðis verið að vara við falspóstum sem þessum, stöðvað færslur og tilkynnt málið til lögreglu.

Ef grunur leikur á að fyrirtæki hafi fengið svikapóst sem þennan er mikilvægt að hafa samband við viðskiptabanka félagsins og tilkynna málið til lögreglu. 

Ef illa hefur farið setur bankinn af stað ferli í samstarfi við yfirvöld og aðra banka til að endurheimta féð. Því fyrr sem tilkynning berst, þeim mun líklegra er að það endurheimtist. Ennfremur er mikilvægt að kæra öll mál til lögreglunnar. Sjaldnast er ráðist á eitt fyrirtæki í einu og það gerir tilkynningar til lögreglu enn brýnni.