Fara á efnissvæði
22. september 2021

Ríkið styrkir íþróttastarf með COVID-úrræðum

„Við erum alltaf að leita að leiðum til að styðja við starf íþróttafélaganna. Stjórnvöld hafa gert töluvert fyrir íþróttastarfið í landinu í COVID-faraldrinum og eru enn að rétta hjálparhönd, en betur má ef duga skal. Við hjá UMSE bendum okkar aðildarfélögum ævinlega á leiðir sem stjórnvöld og stofnanir ríkisins bjóða upp á og hvetjum forsvarsfólk þeirra til að nýta þá kosti sem eru í boði,“ segir Þorsteinn Marinósson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE).

 

Styðja íþróttastarf um meira en fjóra milljarða

Gróflega útreiknað hafa stjórnvöld varið um 1,9 milljörðum króna í stuðning við íþróttastarf í landinu frá því COVID-faraldurinn skall á af fullum þunga og raskaði starfi íþróttafélaga og iðkenda fyrir rúmu einu og hálfu ári.

 

 

Mestu munar um greiðslu til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna. Í lok ágúst höfðu verið greiddar 1.373 milljónir króna til íþróttafélaga vegna launa- og verktakagreiðslna. Endanleg heildarfjárhæð liggur enn ekki fyrir því úrræðið er í gildi til áramóta. Ef bætt er við ráðningarstyrkjum og sérstökum frístundastyrkjum sem kynntir voru til sögunnar í vor nema stuðningsaðgerðir stjórnvalda rúmum fjórum milljörðum króna.

Af öðrum stuðningsaðgerðum stjórnvalda má nefna almennar stuðningsaðgerðir til íþróttahreyfingarinnar. Greiddar voru 300 milljónir króna til ÍSÍ, sem deildi fjármununum út vorið 2020 og sértækir styrkir upp á 150 milljónir króna vegna tekjutaps eða tekjufalls vegna viðburða sem féllu niður. Þá nam stuðningur við æskulýðsfélög 50 milljónum króna. Fram kom í fréttum í vikunni að von sé á enn einu úrræðinu, stofnun sjóðs fyrir þá sem þurftu að fella niður stóra viðburði sem nýtast sem fjáröflun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf.

 

Allir að leggja til

Þorsteinn bendir á að UMSE hafi nýtt úrræði stjórnvalda til að standa straum af launakostnaði, hlutabótaleiðin nýtt tímabundið og starfshlutfall hans sjálfs var lækkað á meðan.

 

„Því miður eru þó alltaf einhverjir sem ekki passa inn í þann ramma sem í boði er og enn vantar ákveðin úrræði til þess að tryggja jafnræði. Sömuleiðis á eftir að fara gríðarleg orka í að ná félagsstarfinu aftur á rétt ról og mikilvægt að því verði gefinn gaumur í styrkjum og fjárveitingum á næstu misseirum. Það verða allir að leggja til,” heldur hann áfram.

 

Geta haldið æfingagjöldum óbreyttum

Öðru máli gegnir hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ. Kristrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir að starfshlutfall starfsmanna hafi ekki verið lækkað og hlutabótaleiðin ekki nýtt heldur styrkir sóttir í gegnum Vinnumálastofnun og aðrar leiðir farnar til að halda starfinu gangandi og fólki í vinnu.

„Stjórnvöld hafa stutt mjög vel og rausnarlega við íþróttastarfið og hefur stuðningurinn þeirra vera mjög mikilvægur fyrir íþróttafélögin til að geta haldið óbreyttri starfsemi. Við skiluðum þessum góða stuðningi áfram til foreldra í formi þess að halda æfingagjöldum óbreyttum,“ segir Kristrún.