Fara á efnissvæði
26. júlí 2022

Risastórt samkomutjald risið á Selfossi

Allt er að smella saman fyrir Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina. Félagar í Björgunarfélagi Árborgar reistu í gær geysistórt samkomutjald á tjaldsvæði mótsins við Suðurhóla á Selfossi.

Í samkomutjaldinu verða tónleikar á hverju kvöldi á meðan Unglingalandsmóti UMFÍ stendur. Þar koma m.a. fram Bríet, Herra Hnetusmjör, Frikki Dór og Jón Jónsson, Birnir, Jón Arnór og Baldur, Stuðlabandið, DJ Dóra Júlía, Sigga Ózk og margir fleiri. Tónleikarnir hefjast á fimmtudagskvöld og verða þeir síðustu í aðdraganda mótsslita á sunnudagskvöld.

 

 

Tjaldsvæðinu verður eins og ætíð skipt upp eftir sambandsaðilum UMFÍ. Inni í 8.500 króna þátttökugjaldinu á Unglingalandsmótið fylgir aðgangur að tjaldsvæðinu fyrir alla fjölskylduna og alla afþreyingu sem boðið verður upp á, þar á meðal tónleikana.

Tjaldsvæðið opnar á fimmtudag.

Á kortinu hér af Selfossi sjást helstu keppnisstaðir og tjaldsvæðið þar sem samkomutjaldið verður. 

 

 

 

Eins og á öllum öðrum Unglingalandsmótum er fjölbreytt dagskrá í boði fyrir alla mótsgesti á Selfossi um verslunarmannahelgina. Leikjagarður verður settur upp, fótbolti verður fyrir 8-10 ára og allir sem vilja geta fengið að prófa ýmsar greinar og þar fram eftir götunum. Öll afþreying er opin öllum og án endurgjalds.

Íþróttir og frábær skemmtun

Unglingalandsmót UMFÍ er fyrir 11-18 ára börn og ungmenni sem reyna fyrir sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Að þessu sinni verður boðið upp á meira en 20 greinar frá föstudegi til sunnudags. Þar á meðal eru biathlon, götuhjólreiðar, körfubolti, knattspyrna, frisbígolf, mótocross, kökuskreytingar borðtennis, frjálsar íþróttir, golf, fimleikalíf, hestaíþróttir og margar, margar  fleiri. Boðið er upp á íþróttir fatlaðra en auðvitað eru fatlaðir hvattir til að skrá sig í hvað sem hugurinn flögrar til.

 

 

Gríðarlegur fjöldi fólks verður á Selfossi um verslunarmannahelgina, börn og ungmenni með foreldrum sínum. Götum verður lokað í kringum svæði Unglingalandsmótsins til að tryggja öryggi mótsgesta.

 

Skráningafrestur er liðinn

Frestur til að skrá sig á Unglingalandsmót UMFÍ er liðinn. En... Ungmennafélagsandinn er í hávegum hafður. Þess vegna hefur verið ákveðið að hafa enn opið fyrir skráningu í flestar greinar fram til klukkan 12 á fimmtudag.

Smelltu HÉR til þess að greiða þátttökugjald. 

Þegar búið er að greiða þátttökugjaldið er gengið frá skráningu í einstakar greinar með því að smella HÉR.

 

Hér geturðu séð alla dagskránna á Unglingalandsmóti UMFÍ

Munið eftir að skoða vefsíðu mótsins: www.ulm.is

Hér má sjá fleiri myndir af því þegar samkomutjaldið var reist í gærkvöldi.