Fara á efnissvæði
19. mars 2018

Rósa sæmd gullmerki UMFÍ

Rósa Marinósdóttir var sæmd gullmerki UMFÍ á sambandsþingi Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) á Hvanneyri í síðustu viku. Kristján Gíslason fékk starfsmerki UMFÍ fyrir gott starf í þágu hreyfingarinnar á sama tíma.

Það var Jóhann Steinar Ingimundarson, stjórnarmaður UMFÍ, sem veitti Rósu gullmerkið. Rósa hefur verið burðarás í íþróttastarfi UMSB í fjölda ára. Í fyrrasumar var Rósa heiðruð sérstaklega vegna skeleggrar framgöngu sem sjálfboðaliði á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi 2016. Hún gekk tugi kílómetra á hverjum degi. Öll fjölskylda Rósu vann á mótinu. Rósa hefur sjálf verið sjálfboðaliði undir merkjum Ungmennafélagsins Íslendings og Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) síðan árið 1980 eða í samfleytt 37 ár.

Á sambandsþingi UMSB var Rósa jafnframt þingforseti ásamt Guðmundir Sigurðssyni.

Á sambandsþinginu var kosin ný stjórn. Sólrún Halla Bjarnadóttir gaf ekki kost á sér áfram sem sambandsstjóri og var María Júlía Jónsdóttir kosin í hennar stað. Guðrún Þórðardóttir er varasambandsstjóri, Hafdís Ósk Jónsdóttir vara varasambandsstjóri, Sigríður Bjarnadóttir gjaldkeri, Kristín Gunnarsdóttir ritari, Anna Dís Þórarinsdóttir meðstjórnandi, Þórður Sigurðsson vara ritari, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson varagjaldkeri

 

Rósa: „Mér finnst æðislegt að vera sjálfboðaliði“

Fleiri fréttir um þingið á vef UMSB