Sakavottorð verði skráð rafrænt snemma árs 2020
Stefnt er að því að skráning sakavottorða verði rafræn snemma árs 2020. Framkvæmdastjóri UMFÍ segir um stórkostlegt framfaraskref að ræða sem auki mikið öryggi iðkenda.
Dómsmálaráðuneytið mun í upphafi næsta árs taka í notkun rafræna skráningu sakavottorða. UMFÍ hefur lengi kallað eftir því að skráningin verði gerð rafræn því það auðveldar aðgengi forráðamanna sambandsaðila UMFÍ, aðildarfélaga þeirra og annarra félagasamtaka að sakaskrá og sakavottorðum og gerir þeim kleift að ráða starfsfólk og sjálfboðaliða sem hæfa börnum.
Fram til þessa hafa forráðamenn félaga getað óskað eftir því að UMFÍ kalli eftir upplýsingum úr sakaskrá hjá embætti sýslumanns.
Í nýjum íþróttalögum sem breytt var í vor kemur skýrt fram að óheimilt að ráða til starfa fólk sem hefur hlotið refsidóm vegna kynferðis- og annarra ofbeldisbrota, auk brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum. Reglurnar ná jafnt til starfsfólks og sjálfboðaliða á vegum íþróttafélaga sem hafa umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri.
Ísland færist nær nútímanum
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist gera ráð fyrir að innleiðingin verði að veruleika í janúar eða febrúar á næsta ári. Það sé liður í þeim stafrænu breytingum sem verið sé að vinna að í ráðuneytinu.
„Breytingar sem þessi færa okkur nær nútímanum þar sem allt er að verða rafrænt og enn mikilvægara er að þær munu auka skilvirkni, hagræðingu og gera okkur kleift að veita betri þjónustu. Ég hef verið að fylgja eftir rafrænum þinglýsingum sem dæmi og sé mikil tækifæri í vinnunni um Stafrænt Ísland en vefurinn island.is mun bæta þjónustu við fólk verulega,“ segir dómsmálaráðherra.
Eykur öryggi iðkenda
Nokkur ár eru síðan menntamálaráðherra vakti máls á mikilvægi þess að innleiða rafræna skráningu sakavottorða til að auðvelda aðgengi að þeim og bæta þar með öryggi iðkenda. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fagnar þróun málsins.
„Ég fagna því skrefi sem dómsmálaráðuneyti hyggst stíga í þessu mikilvæga máli. Það er í samræmi við setningu nýrra laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs sem ég lagði fram á síðasta vorþingi og nýlega breytingu á íþróttalögum þar sem gert er ráð fyrir að framvísa þurfi upplýsingum úr sakaskrá áður en til ráðningar kemur,“ segir hún
Bætir íþróttastarfið
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, segir rafræna skráningu sakavottorða byltingu fyrir starfsemi félagasamtaka.
„Foreldrar koma sjálfviljugir með börn í ungmenna- og íþróttahreyfinguna í trausti þess að þar sé öruggt að vera. Því er algjört forgangsmál að skapa öruggar aðstæður. Margir einstaklingar eiga sínar bestu minningar úr íþróttasölum landsins en því miður hafa sumir þurft að lifa við sárar minningar um þjáningu úr þeim. Með innleiðingu rafrænnar sakaskrár er hægt að auka öryggi iðkenda mikið og mögulega koma í veg fyrir að þjálfarar, starfsfólk og sjálfboðaliðar með illt í hyggju komi til starfa hjá íþrótta- og ungmennafélögum og öðrum félagasamtökum,‟ segir hún.
Auður Inga segist vænta að með rafrænni skráningu sakavottorða verði ferlið hraðvirkt. Hún bendir á að í Danmörku og Finnlandi geti ákveðnir aðilar hjá íþróttafélögum og félagasamtökum með einföldum hætti slegið inn kennitölur á þeim vef sem upplýsingarnar eru sóttar á og fengið svörin á mjög stuttum tíma.
„Við áréttum að æskilegt er að allir þeir sem starfa með börnum og ungmennum skili inn samþykkt fyrir því að aðildarfélag þeirra fái heimild til að sækja upplýsingar úr sakaskrá. UMFÍ getur aðstoðað aðildarfélög sín við það,‟ segir Auður Inga að lokum og vill koma því á framfæri að komi upp grunur um mögulegt brot eða mjög þung og erfið mál innan félaga sem aðild eiga að UMFÍ þá geti forráðamenn þeirra eða hlutaðeigendur haft samband við Æskulýðsvettvanginn, sem UMFÍ á aðild að. Hann taki við öllum málum og vinni að þeim utan félaganna sjálfra til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, frekara tjóni og sársauka.