Fara á efnissvæði
07. maí 2018

Sambandsaðilar UMFÍ kynntu sér mótasvæðið á Sauðárkróki

Vorfundur UMFÍ var haldinn á Sauðárkróki á föstudagskvöld og fyrri part laugardags dagana 4. – 5. maí. Á vorfundinn mættu fulltrúar sambandsaðila UMFÍ ásamt starfsfólki. Á föstudeginum fóru þau Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, yfir landsmótið sem verður á Sauðárkróki í sumar og Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn.

Mikil breyting hefur verið gert á Landsmótinu frá því sem áður var. Það er nú opið öllum 18 ára og eldri sem hafa gaman af því að hreyfa sig. Ekki er gerð krafa um að þátttakendur séu skráðir í ungmennafélag eða yfir höfuð í íþróttafélag. Þessi breyting gerir það að verkum að mótið er opið vinahópum, fjölskyldum, íþróttafólki og allskonar fólki sem hefur gaman af því að hreyfa sig.

Á Landsmótinu á Sauðárkróki er slegið saman tveimur mótum, Landsmótinu og Landsmóti UMFÍ 50+.

Eins og Ómar lýsti mótinu þá felast í því miklir möguleikar. Dagskráin er einstaklega fjölbreytt, stutt tímahólf fyrir hverja grein og getur hver þátttakandi búið til sína eigin dagskrá.

Í framhaldi af kynningunni var uppákoma sem Jörgen Nilsson, tómstundaleiðbeinandi í Ungmenna- og tómstundabúðunum á Laugum stýrði og vakti heilmikla kátinu á meðal fundargesta.

Á laugardeginu fóru vorfundargestir um Sauðárkrók, skoðuðu bæinn, Landsmótssvæðið og tjaldstæðin ofan við bæinn.