Fara á efnissvæði
29. október 2020

Sambandsráðsfundur UMFÍ í fyrsta sinn með rafrænum hætti

„Það er ljóst að Covid-19 mun hafa hamlandi áhrif á allt íþrótta- og æskulýðsstarf út árið og eitthvað fram á næsta ár. En það er ekki annað í boði fyrir okkur en að vera bjartsýn og takast á við þau verkefni sem birtast okkur hverju sinni,“ segir Haukur Valtýsson, formaður Ungmennafélags Íslands  (UMFÍ). Í ávarpi sínu í ársskýrslu UMFÍ 2020 rifjar hann upp að öllum mótum UMFÍ sem fyrirhuguð voru á þessu ári var frestað fram á næsta ár.

 

 

Haukur segir viðbúið að afleiðingar faraldursins verði víðtæk og hvetur hann til samstöðu og samvinnu við þessar sérstæður.

„Við getum þetta saman því við erum samstilltari og sterkari en nokkru sinni. Ég þakka það því sögulega tímamótaskrefi sem stigið var á sambandsþingi UMFÍ í fyrra þegar þrjú geysistór og öflug íþróttabandalög gengu til liðs við UMFÍ. Við inngönguna bæði stækkaði UMFÍ, landssambandið varð margfalt öflugra og fékk sterkari rödd. En það sem mestu skiptir að við erum sterkari saman og getum betur tekist á við það sem að steðjar. Við gerum það saman – og við getum það saman,“ segir hann.

Sambandsráðsfundur UMFÍ verður haldinn síðdegis í dag. Fundurinn er haldinn annað hvert ár og er hann æðsta vald í málefnum ungmennafélagshreyfingarinnar á milli sambandsþinga. Fundinn sitja formenn sambandsaðila eða varamenn þeirra ásamt stjórn UMFÍ. Tæplega sextíu fulltrúar UMFÍ um allt land hafa boðað sig á fundinn sem verður haldinn á netfundartólinu Teams.

 

 

Allt fyrirkomulag fundarins verður með rafrænum hætti, þar á meðal kosningar um þau mál sem lögð verða fyrir fundinn.

Á dagskrá samráðsfundarins eru hefðbundin mál sem öll verða afgreidd með rafrænum hætti.

Hægt er að smella á myndina hér að ofan og skoða ársskýrslu UMFÍ.

Minnisblað UMFÍ fyrir íþróttahreyfinguna

Á meðal þess sem kynnt verður á fundinum er sextán blaðsíðna minnisblað UMFÍ um veirufaraldurinn, afleiðingar hans og tillögur að aðgerðum til að hjálpa íþrótta- og æskulýðsfélögum og sporna við neikvæðum áhrifum faraldursins á félög og iðkendur.

Í inngangsorðum minnisblaðsins kemur fram að miklar áhyggjur eru af stöðu mála í hreyfingunni vegna COVID og er staða einstakra félaga mjög mismunandi. Tilgangur með minnisblaðinu sé að taka saman stutt yfirlit um áhrifin og þá umræðu sem er til staðar í hreyfingunni. Lagðar eru fram nokkrar tillögur sem byggðar eru á samtölum við einstaklinga úr grasrótarstarfi UMFÍ og stjórnendur aðildarfélaga UMFÍ í kjölfar þess að þriðja bylgja faraldursins stöðvaði íþróttastarf á höfuðborgarsvæðinu í byrjun október.

Um er bæði að ræða aðgerðir í vörn og sókn, enda lykilatriði í góðu íþróttastarfi að huga að báðum þáttum til að ná árangri. Til grundvallar er staða mála og þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til af hálfu stjórnvalda.

„Eins er mikilvægt í íþróttum og æskulýðsstarfi að allt liðið stefni í sömu átt og því er samstarf í þessum málaflokki gríðarlega mikilvægt og tillögur UMFÍ grundvallast allar á þeim forsendum,“ eins og segir í inngangsorðum minnisblaðsins.

Hægt er að smella á myndina hér að neðan og fletta Minnisblaði UMFÍ um COVID-19.