Fara á efnissvæði
24. júní 2019

Samdi vísu í tilefni af Landsmóti UMFÍ 50+

Philip Vogler, leiðsögumaður og þýðandi á Egilsstöðum, setti saman skemmtilega draghendu í tilefni af því að Landsmót UMFÍ 50+ er haldið í Neskaupstað um næstu helgi, dagana 28. – 30. júní.

Hendan er svona:

 

Í kolum snöggt og keppni hitnar,

kappinn æstur svitnar.

Skiptir máli að mestu nenni

í mark svo fyrstur renni.

 

Philip er bóndasonur frá Texas í Bandaríkjunum en hefur búið með fjölskyldu sinni á Austurlandi í næstum 40 ár. Hann hefur lengi haldið þeirri íslensku hefð við að kasta fram vísum um eitt og annað, iðulega því sem tengist Austurlandi.

Myndin af honum hér að ofan var tekin ofan við Flögufoss í Breiðdal.

 

Hvað er í boði?

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri skemmtun sem fer fram dagana 28.-30. júní. Boðið er upp á fjölda íþróttagreina. Þátttakendur þurfa hvorki að vera skráðir í íþróttafélag né ungmennafélag. Greiða þarf eitt gjald fyrir þátttöku í eins mörgum greinum og viðkomandi vill taka þátt í.

Greinar í boði: boccía, bridds, frjálsar íþróttir, frisbígolf, garðahlaup, golf, línudans, lomber, pílukast, pútt, pönnukökubakstur, ringó, skák, stígvélakast, stígvélakast og sund. 

Laugardaginn 29. júní verður skemmtikvöld. Veislustjóri er Jens Garðar Helgason, boðið verður upp á dýrindis kvöldverð og skemmtiatriði. Undir dansi leikur Danshljómsveit Guðmundar R. Gíslasonar. Greiða þarf sérstaklega fyrir skemmtikvöldið. Aðgangseyrir er 5.200 krónur. 

 

Skráningu á Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað lýkur þriðjudaginn 25. júní

Allar upplýsingar um mótið er að finna hér og þar geturðu líka skráð þig: Landsmót UMFÍ 50+

Hægt er að smella á myndina hér að neðan og skoða mótablað sem gefið er út í tengslum við Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað