Fara á efnissvæði
18. október 2024

Samráð nauðsynlegt við endurskoðun íþróttalaga

Talsvert var fjallað um endurskoðun íþróttalaga og stuðning við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf á 45. sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór í Borgarfirði í síðustu viku. Á fundinum skrifuðu fulltrúar sambandsaðila undir bréf til ráðherra þar sem áhersluatriði hreyfingarinnar eru dregin fram. Bréfið var sent til Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, í dag. 

Í bréfinu er því fagnað að hafin sé endurskoðun á íþróttalögum af hálfu ráðuneytisins. Íþróttalögin séu að stofni til frá árinu 1998. Í ljósi breytinga á umfangi og fyrirkomulagi íþróttastarfs í landinu sé án efa skynsamlegt að taka lögin til endurskoðunar. UMFÍ fagnar einnig hugmyndum ráðuneytisins um víðtækt samráð við endurskoðun laganna enda mikilvægt að lögin séu skýr og að um þau ríki sem víðtækust sátt.

 

Áhersluatriðin eru eftirfarandi:

  • Að festa tvö meginhlutverk íþróttahreyfingarinnar skýrar í lögum: Annars vegar afreksstarf og hins vegar grasrótarstarf íþróttafélaganna. Þótt þessi tvö meginhlutverk séu jafn mikilvæg og óaðskiljanleg í grunninn þá þarfnast þau mismunandi umgjarðar og skipulags sem mikilvægt er að tekið verði á við endurskoðun laganna.
  • Tryggja möguleika almennings hvar sem er á landinu til að stunda íþróttir. Af því að forvarnargildi íþrótta er löngu sannað. En því til viðbótar styrki íþróttaiðkun andlega og líkamlega heilsu og styrkir samfélög og félagsleg tengsl.
  • Skyldur sveitarfélaga til að tryggja aðstöðu til íþróttaiðkunar og stuðningur þeirra við íþrótta- og æskulýðsstarf.
  • Ábyrgð og hlutverk sjálfboðaliða og forystufólks verði skilgreind með skýrum hætti svo áfram verði hægt að fá fólk til starfa í félögum um land allt.

 

Bréfið í heild sinni

Ungmennafélag Íslands fagnar því að hafin sé endurskoðun á íþróttalögum af hálfu ráðuneytisins. Íþróttalögin eru að stofni til frá 1998 og í ljósi breytinga á umfangi og fyrirkomulagi íþróttastarfs í landinu er án efa skynsamlegt að taka lögin til endurskoðunar. UMFÍ fagnar einnig hugmyndum ráðuneytisins um víðtækt  samráð við fagaðila við endurskoðun laganna enda afar mikilvægt að lögin séu skýr og að um þau ríki sem víðtækust sátt.

Með bréfi þessu vill UMFÍ koma á framfæri nokkrum meginatriðum sem við teljum mikilvægt að lögð verði til grundvallar í vinnu við endurskoðun laganna. Áréttað skal þó að hér er ekki um tæmandi lista að ræða. Við hlökkum til að taka þátt í umræðum og frekara samráði á vinnslutíma málsins. Að mati stjórnar og sambandsaðila UMFÍ er mikilvægt að í nýjum íþróttalögum verði kveðið á um eftirfarandi atriði:

Festa tvö meginhlutverk íþróttahreyfingarinnar skýrar í lögum: Annars vegar afreksstarf og hins vegar grasrótarstarf íþróttafélaganna. Íþróttahreyfingin á landinu hefur tvö ólík meginhlutverk. Annars vegar er það afreksstarf með okkar fremsta íþróttafólki sem keppir á hæstu stigum bæði innanlands sem utan og hins vegar grasrótarstarf íþróttafélaganna sem miðar að framboði íþrótta fyrir alla. Þetta starf íþróttafélaganna hefur líklega aldrei verið jafn mikilvægt og nú um stundir. Þótt þessi tvö meginhlutverk séu jafn mikilvæg og óaðskiljanleg í grunninn þá þarfnast þau mismunandi umgjarðar og skipulags sem mikilvægt er að tekið verði á við endurskoðun laganna.

Tryggja möguleika almennings hvar sem er á landinu til að stunda íþróttir. Mjög mikilvægt er - og í samræmi við tilgang og markmið Ungmennafélags Íslands - að landsmönnum öllum standi til boða aðstaða og möguleikar til að stunda fjölbreyttar íþróttir um land. Forvarnargildi íþrótta er löngu sannað. En því til viðbótar styrkir íþróttaiðkun andlega og líkamlega heilsu og styrkir samfélög og félagsleg tengsl. Mikilvægt er að þessi réttur verði tryggður í lögum með afgerandi hætti - enda vafalítið aldrei verið mikilvægari samfélaginu en nú um stundir.

Skyldur sveitarfélaga til að tryggja aðstöðu til íþróttaiðkunar og stuðningur þeirra við íþrótta- og æskulýðsstarf. Sveitarfélögin gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í íþróttastarfi og sinna því langflest af talsverðum metnaði. Hlutverk þeirra sem snýr að uppbyggingu mannvirkja er nefnt í núgildandi lögum. Nauðsynlegt er að festa betur í sessi aðkomu þeirra og skyldur varðandi starfsemi og rekstur. Þá er einnig mikilvægt að ávarpa hlutverk ríkisins gagnvart þeim lýðheilsumarkmiðum sem unnið er eftir í okkar starfi og það fest betur í sessi í nýjum lögum.

Ábyrgð og hlutverk sjálfboðaliða og forystufólks verði skilgreind með skýrum hætti. Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða vinnur óeigingjarnt starf fyrir íþrótta- og ungmennafélögin um land allt. Í því hlutverki og sem forystufólk tekur það ábyrgð á margvíslegum viðburðum og verkefnum af margvíslegu tagi. Skýra þarf persónulega ábyrgð þeirra betur og setja störf þeirra og ábyrgð í eðlilegt samhengi svo áfram verði
hægt að fá fólk til starfa í félögum um land allt.

Íþróttalög eiga að setja grunnramma um íþróttastarf í landinu og móta langtímastefnu í þeim málum. Markmið með íþróttalögum er að okkar mati að setja grunnramma um íþróttastarfsemi í landinu og marka þeim skýra stöðu þó án þess að hefta þann kraft sem felst í ungmennafélögum og öðrum félagasamtökum á sviði íþróttastarfsemi. Að mati UMFÍ væri það til mikilla bóta að í lögunum kæmu fram langtímamarkmið íslensks samfélags um uppbyggingu íþrótta á Íslandi.

Hér að ofan höfum við dregið fram nokkur meginatriði sem UMFÍ telur að séu afar mikilvæg í umræðunni við endurskoðun á íþróttalögum. Við vonum að þetta sé gagnlegt innlegg í þessa mikilvægu vinnu og hlökkum til frekara samráðs og samtals um eflingu íþróttastarfs á Íslandi.

Fyrir hönd stjórnar og sambandsaðila UMFÍ