Fara á efnissvæði
14. október 2017

Samvinna UMFÍ og ÍSÍ skilar góðum árangri

„Samstarf UMFÍ við ÍSÍ hefur aukist mikið í tíð þeirrar stjórnar sem nú situr. Það er jákvætt. Enn fleiri verkefni eru í vinnslu,“ segir Haukur Valtýsson, formaður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Hann sagði í ávarpi sínu við setningu sambandsþings UMFÍ sem sett var í morgun, að forystufólk í UMFÍ og ÍSÍ hafi haldið nokkra fundi ásamt framkvæmdastjórum um frekara samstarf.

„Þar hefur ýmislegt verið rætt, óformlega, um meiri samvinnu og fyrirkomulag. Málin hafa þar verið rædd á opinskáan og vinalegan hátt. UMFÍ á að vera hreyfing sem er opin fyrir samstarfi. Ég hvet fólk til að ræða málefnalega um það sem þessar hreyfingar geta hugsanlega unnið saman að, hvernig þær geta samnýtt krafta sína í þágu samfélagsins.“

 

UMFÍ horfi fram á við

Samvinna voru ofarlega í huga Hauks í ávarpinu, ekki síst í tengslum við lýðheilsumál.

„Forvarnir eru orðnar æ mikilvægari fyrir heilsufar þjóðarinnar hvort sem er um að ræða geðheilsu, líkamlega heilsu eða aðra kvilla. Rannsóknir sýna að skipulagt íþrótta og æskulýðsstarf skilar árangri í forvarnarstarfi og þar ber að hrósa aðildarfélögum hreyfingarinnar fyrir frábæran árangur. Hann er svo góður að eftir er tekið erlendis. Með samstilltu átaki verður gott verk enn betra og þurfum að vera á tánum til þess að halda góðri stöðu og bæta í,“ sagði hann. „Við eigum að leita eftir samstarfi við fagaðila og nýta okkur þekkingu þeirra til að standa betur að þeim verkefnum sem unnið er að á hverjum tíma. Til að það takist þá verðum við alltaf að horfa fram á við, vera opin fyrir nýjum hugmyndum og vera óhrædd við að ræða þær og meta UMFÍ og landsmönnum til heilla.

Sigríður Jónsdóttir, varaforseti ÍSÍ, sem sat þingið, tók undir með Hauki um kosti samstarfs. Hún sagði samvinnuna mjög sýnilega og hafa vakið athygli í íþróttahreyfingunni.

 

150 fulltrúar á sambandsþingi

Sambandsþing UMFÍ er haldið á Hótel Hallormsstað helgina 14. – 15. október. Það sitja um 150 fulltrúar þeirra rúmlega 340 félaga sem aðild eiga að UMFÍ, gestir frá ÍSÍ, íþróttabandalögum og fleirum. Nokkrir þingmenn eru gestir þingsins. Þar á meðal var Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og fyrrverandi formaður Viðreisnar, viðstaddur setninguna í morgun. Þar voru einnig þau Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, og Guðrún Ágúst Þórdísardóttir, varaþingmaður úr NA-kjördæmi. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur boðað komu sína á þingið á morgun.

Sambandsþing UMFÍ er æðsta vald í málefnum UMFÍ og er það haldið annað hvert ár.