Fara á efnissvæði
26. febrúar 2020

„Samvinnan skilar meiri árangri“

„Við hjá UMFÍ teljum það brýnt um þessar mundir að einbeita okkur að því að ná betur til fólks af erlendum uppruna sem hefur flust hingað til lands í gegnum árin. Sýnt hefur verið fram á að helmingi færri börn af erlendum uppruna og tala annað tungumál en íslensku á heimilinu taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi en þau frá íslenskumælandi heimilum. Við verðum því að ná til þeirra,“ segir Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ.

Hann hélt ávarp á 74. ársþingi Knattspyrnusambands Íslands sem haldið var í Ólafsvík um síðustu helgi.

Haukur lagði þar áherslu á kosti samvinnu, bæði aðildarfélaga UMFÍ og samvinnu við aðra. Hann nefndir sérstaklega samstarf aðildarfélaga Héraðssambands Snæfells- og Hnappadalssýslu (HSH) sem staðið hefur sig vel við að kynna fjölbreytt íþróttastarf á svæðinu fyrir nýjum fjölskyldum og íbúum af erlendum uppruna. Auk þess nefndi hann verkefnið Vertu með sem UMFÍ stendur að með ÍSÍ og er hugsað til að stuðla að því að fjölga börnum af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

„Þátttaka nýrra íbúa á Íslandi í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur jákvæð áhrif og eru sterkar vísbendingar um að þessir nýju íbúar landsins tengist nýju samfélagi betur ef þeir taka þátt í skipulögðu starfi. Eins og HSH og reyndar fleiri félög sem vinna saman að málinu hafa sýnt fram á þá geta íþrótta- og ungmennafélög verið sterkir bakhjarlar í þessu verkefni. Það er allra hagur og samfélaginu öllu til góða,“ sagði hann.

 

Hér er ávarp Hauks í heild sinni:

Formaður og stjórn KSÍ, fulltrúi ÍSÍ, heiðursformenn KSÍ, góðir þingfulltrúar og gestir. 

Ég flyt ykkur bestu kveðjur stjórnar og starfsfólks Ungmennafélags Íslands.

Það er gaman og gott að sjá að svo stór og öflug hreyfing eins og KSÍ haldi ársþing utan höfuðborgarsvæðisins. Það styrkir tengslin við byggðir landsins og er jákvætt á allan hátt. 

Við hjá UMFÍ höfum lengi talað fyrir kostum samvinnu og góðum tengslum. Samvinnan á sér engin landamæri eins og aðildarfélög HSH - Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu hafa sýnt fram á. Þau hafa staðið sig vel í því að kynna fyrir nýjum fjölskyldum og íbúum á Íslandi af erlendu bergi fjölbreytt íþróttastarf á Snæfellsnesi. Héraðssambandið hlaut fyrir það Hvatningarverðlaun UMFÍ í október á síðasta ári.

Við hjá UMFÍ teljum það afar brýnt um þessar mundir að einbeita okkur að því að ná betur til fólks af erlendum uppruna sem hefur flust hingað til lands í gegnum árin. Sýnt hefur verið fram á að helmingi færri börn af erlendum uppruna og tala annað tungumál en íslensku á heimilinu taka þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi en þau frá íslenskumælandi heimilum. Við verðum að ná til þeirra.

Þátttaka nýrra íbúa á Íslandi í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur því jákvæð áhrif og eru sterkar vísbendingar um að þessir nýju íbúar landsins tengist nýju samfélagi betur en aðrir ef þeir taka þátt í skipulögðu starfi. Við vinnum með ÍSÍ að því máli og nefnum verkefnið Vertu með!

Knattspyrna kemur auðvitað þar sterk inn.

Eins og HSH og reyndar fleiri félög sem vinna saman að málinu hafa sýnt fram á þá geta íþrótta- og ungmennafélög verið sterkir bakhjarlar í þessu verkefni. Það er allra hagur og samfélaginu öllu til góða.

En íþróttahreyfingin getur unnið saman í fleiri verkefnum. Þar á meðal í þeim sem varða umgjörðina um íþróttir og skipulagt starf okkar. Í nýlegri niðurstöðu starfshóps Alþingis um um mögulegar breytingar á skattlagningu á starfsemi þriðja geirans er sú niðurstaða jákvæð gagnvart félagasamtökum og styrkir rekstur hennar og alla aðstöðu til hreyfingar. Þar á meðal er nýr þjóðarleikvangur.

Við erum sterkari saman og getum látið í okkur heyra. Það er allra hagur. Samvinnan skilar meiri árangri.

Ég hvet að lokum alla hér til að kynna sér Íþróttaveisluna og Unglingalandsmót UMFÍ og hvetja fólk til að mæta, sérstaklega fólk af erlendu bergi brotið og fjölskyldur þeirra. Það eru frábærir viðburðir fyrir alla sem elska hreyfingu og finnst gaman að taka þátt í fjölbreyttum íþróttum með fjölskyldu, vinum og vinnufélögum og öðru íþróttafólki. Ég hlakka til að sjá ykkur þar í sumar.

Ég óska knattspyrnuhreyfingunni velgengni og við hjá UMFÍ erum tilbúin í samstarf og samvinnu. 

Stöndum saman, störfum saman, eflum okkar starfsemi til heilla fyrir samfélagið.

 

Gangi ykkur vel og takk fyrir mig.