Fara á efnissvæði
25. júlí 2023

Sandkastalar, blindrabolti og heilmikið fjör á Sauðárkróki

Hvað langar þig að gera?

Heilmikið verður um að vera á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina annað en keppni í íþróttum. Þar verður líka hægt að fara niður i fjöru og búa til sandkastala. Skóflur, fötur og allskonar áhöld verða á staðnum og eru allir velkomnir. 

 

Þetta er bara einn viðburður af veislunni sem Unglingalandsmótið er í raun. Þarna verður líka sundlaugarpartý í sundlauginni, blindrafótbolti, jóga og slökun, strandhlaup, kynning og borðtennis, fimleikafjör sem hópur landsliðsfólks í fimleikum stendur fyrir. Þar verður líka hægt að taka þátt og prófa undir styrkri og öruggri leiðsögn landsliðsfólks. 


Andrew Henderson, margfaldur heimsmeistari í freestyle football, verður á svæðinu og heldur vinnubúðir fyrir alla þátttakendur mótsins, hægt verður að spila bandý, prófa að skjóta af bogum og horfa á hópinn BMX Brós sína listir sínar á BMX-hjólum. 

Til viðbótar við allt þetta verður bæjarganga með leiðsögn, júdókynning og tónleikar öll kvöldin. 

Yfirleitt þarf ekki að skrá sig sérstaklega á þessa viðburði heldur bara mæta og taka þátt. 

 

Skráning er í fullum gangi á umfi.is og er hægt að skrá þátttakendur á aldrinum 11-18 ára í allan þann fjölda greina sem í boði er á mótinu til mánudagsins 31. júlí næstkomandi.

Sjáðu alla afþreyinga- og skemmtidagskránna hér

Þú sérð keppnisgreinar og gengið frá skráningur hér