Fara á efnissvæði
05. febrúar 2024

Sandra tekur við keflinu hjá HK

„Það eru mörg tækifæri í HK og mikið af öflugu fólki. Spennandi tímar eru framundan,“ segir Sandra Sigurðardóttir, sem nýverið tók við starfi framkvæmdastjóra HK í Kópavogi af Hönnu Cörlu Jóhannsdóttur. 

Sandra er íþrótta- og heilsufræðingur frá Háskóla Íslands og kemur austan úr Hveragerði. Hún er með MBA-gráðu frá sama skóla, er viðurkenndur stjórnarmaður frá Akademias og er í miðju námi í opinberri stjórnsýslu.  

Sandra er með víðtæka reynslu úr íþróttastarfi en hún hefur verið yfirþjálfari og framkvæmdastjóri fimleikadeildar Hamars og stjórnarmaður. Auk þess hefur hún setið í stjórnum og sinnt trúnaðarstörfum fyrir ýmis sérsambönd. Hún stofnaði sprotafyrirtækið Berglindi heilsumiðstöð, sem er heilbrigðisráðgjöf á netinu. Ofan á allt hefur Sandra látið að sér kveða í bæjarmálum í Hveragerði.  

Sandra tekur við góðu búi frá frá Hönnu Cörlu og mörg verkefni eru framundan. Eitt af því fyrsta sem hún gerði var að skella sér á Kópavogsblótið, sem Breiðablik, Gerpla og HK skipuleggja og standa að saman og er þetta eitt stærsta þorrablót landsins.  

„Ég fékk heldur betur innsýn í það sem koma skal enda var þetta partý frá fyrstu mínútu,“ segir Sandra. „Fólk er enn að komast niður á jörðina,“ segir Sandra og viðurkennir að hún sé svo nýkomin til starfa að hún eigi enn eftir að setjast niður með samstarfsfólki sínu og kortleggja það sem framundan er. Hún er spennt að láta til sín taka innan raða HK, aðalstjórn HK sé með skýra framtíðarsýn og verði spennandi að vinna með stjórninni að þeim markmiðum. 

„Við ætlum að halda áfram að byggja á grasrótinni og öfluga æskulýðsstarfinu sem við höfum lagt mikinn metnað í. Við erum með vel valið fólk í hverri stöðu hér í HK og saman ætlum við að ná bikurum í hús,“ segir hún að lokum.