Fara á efnissvæði
23. mars 2023

Sara í Ungmennaráði UMFÍ: Fullt af geggjuðum tækifærum

„Mér finnst ótrúlega gaman í Ungmennaráðinu, er búin að kynnast þar frábæru fólki og fá fullt af geggjuðum tækifærum,” segir Sara J. Geirsdóttir. Hún á sæti í Ungmennaráði UMFÍ sem fundaði í fyrsta sinn í nýrri þjónustumiðstöð í gær. Þetta var fimmtándi fundur ráðsins á starfstímabilinu. Fundað hefur verið á ýmsum stöðum, í Grafarvogi með ungmennaráði þar, með fjarfundarbúnaði og ýmsum öðrum hætti.

Fundurinn í gær var fyrsti staðfundur ráðsins og mættu allir úr ráðinu á fundinn, meira að segja tveir meðlimir sem eru í meistaranámi í Kaupmannahöfn.

Í ungmennaráði UMFÍ sitja ungmenni 16 ára og eldri af landinu öllu. Sara, sem er fremst á myndinni vinstra megin, er einmitt með þeim yngri. Hún er 16 ára.

Hún segir nóg um að vera í Ungmennráðinu. Það sé á fullu að undirbúa nokkur verkefna, þar á meðal skemmtisólarhring, sem er tækifæri fyrir ungt fólk til að koma saman og kynnast nýju fólki. Auk þess undirbýr ráðið viðburðinn Samtal ungmennaráða. Í samtalið er boðið fulltrúum allra ungmennaráða á Íslandi til að deila reynslu sinni. Stærsti viðburður Ungmennaráðs UMFÍ er ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði, sem verður haldin í Skólabúðum UMFÍ að Reykjum í Hrútafirði dagana 22. – 24. september.

Yfirskrift ráðstefnunnar verður Að jörðu skaltu aftur verða og verður áherslan á umhverfismál.

Til viðbótar var rætt um Ungmennabúðir UMFÍ, sem tilkynnt var í vikunni að verði lokað.

Sara segir fróðlegt að vera í Ungmennaráði UMFÍ.

„Ég er alltaf að læra nýja hluti. Þetta er mjög eflandi og ég mæli með því fyrir alla!” segir hún.

 

Hér má nokkrar myndir frá síðustu ráðstefnu Ungmennaráðs UMFÍ, Ungu fólki og lýðræði, sem fram fór í Héraðsskólanum á Laugarvatni árið 2022.