Fara á efnissvæði
27. mars 2023

Sat í 50 ár í ritnefnd Húnavökuritsins

„Þingið gekk vel og allir fóru glaðir út,“ segir Snjólaug Jónsdóttir, formaður Ungmennasambands Austur Húnvetninga (USAH) eftir þing sambandsins sem fram fór í síðustu viku. Nóg var um að vera á þinginu, fjórir voru heiðraðir með gullmerki UMFÍ fyrir sjálfboðaliðastörf sín, formönnum aðildarfélaga voru afhentar afmælisgjafir, ÍSÍ gerði sambandið að fyrirmyndarhéraði og skotfélagið hlaut Hvatningarverðlaun fyrir unglingastarfið.

Til viðbótar lágu fyrir þinginu hvorki fleiri né færri en 22 tillögur um breytingar á lögum og reglugerðum.

Þingið gekk snurðulaust fyrir sig á þremur tímum og segir Snjólaug að því sé að þakka góðum undirbúningi þingfulltrúa.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, var gestur þingsins, flutti ávarp og afhenti viðurkenningar fyrir hönd UMFÍ.

 

Fjögur gullmerki

Eins og áður sagði voru fjórir sjálfboðaliðar heiðraðir með gullmerki UMFÍ. Þau hlutu Auðunn Steinn Sigurðsson, Guðrún Sigurjónsdóttir, Ingibergur Guðmundsson og Jóhann Guðmundsson.

Auður var sæmdur gullmerkinu fyrir óeigingjarnt starf innan USAH og aðildarféflögin Umf Hvöt og hjá Golfklúbbnum ÓS. Hann var í stjórn USAH 2004-2007 og hefur svo setið í varastjórn. Alltaf er Auðunn tilbúinn að stökkva til að hjálpa til við hin ýmsu verkefni sama hversu stór eða smá þau eru.

Guðrún hefur unnið öflugt starf bæði innan USAH og Umf Geislum. Hún var í stjórn USAH árin 2008-2021 og er alltaf tilbúin að stökkva til ef einhverja aðstoð vantar.

Ingibergur hefur lagt fram gríðarlega mikla vinnu fyrir USAH en hann var ritstjóri Húnavökuritsins í tólf ár og sat samanlagt í 38 ár í ritnefnd auk annarra verkefna á vegum USAH hvort sem það er fundarstjórn, mótstjórn eða annað tilfallandi. Ingibergur hefur einnig verið mjög virkur innan aðildafélaga USAH og situr í stjórn Golfklúbbs Skagastandar.

Jóhann var jafnframt í ritnefnd Húnavökuritsins frá 1970-2020 eða í 50 ár og hefur enginn starfað lengur í ritnefndinni en hann.

 

Fimm starfsmerki

Fjögur starfsmerki voru jafnframt afhent vegna sjálfboðaliðastarfa fyrir USAH. Þau hlutu Sigrún Líndal Þrastardóttir, Steinunn Hulda Magnúsdóttir, Rúnar Aðalbjörn Pétursson Jóhanna Guðrún Jónasdóttir og Ari Hermann Einarsson.

Sigrún Líndal er drífandi og hefur verið öflug í uppbyggingu íþróttastarfs hjá Umf. Fram. Hún sat í stjórn USAH á árunum 2009-2017 ásamt því að sinna nefndarstörfum innan USAH og situr hún bæði í íþróttanefnd USAH og landsmótsnefnd USAH.

Steinunn Hulda hefur verið mikill drifkraftur til að koma aftur á frjálsíþróttadeild hjá Hvöt og hefur unnið frábært starf. Hún var í stjórn USAH 2016-2018 en hefur auk þess verið öflug í íþróttanefnd USAH.

Rúnar hefur verið stjórnarmaður hjá UMFB frá 2006 og situr þar enn í stjórn. Hann var formaður USAH 2016-2022 ásamt því að sinna hinum ýmsu nefndarstörfum innan USAH. Rúnar hefur sinnt þjálfun barna og unglinga í frjálsum íþróttum bæði í Húnaveri og á Blönduósi.

Jóhanna var formaður Golfklúbbsins Ós frá 2008-2022. Hún lagði áherslu á barnastarf klúbbsins og sinnir því enn af alúð. Undir hennar stjórn hlaut klúbburinn m.a. hvatningarverðlaun USAH árið 2021 fyrir öflugt barnastarf. Ásamt fleiri störfum og verkum sem hún ýtti áfram.

Ari er stofn- og heiðursfélagi í Golfklúbbnum Ós og var fyrsti ritari stjórnar. Honum hefur verið lýst sem manninum á bak við tjöldin – lætur ekki mikið fyrir sér fara, en til hans hefur sést við að mála hlið, planta og hirða um tré, útbúa teigmerki o.s.frv. Ari Hermann var gerður að heiðursfélaga USAH árið 2013.

 

Meira á www.usah.is