Fara á efnissvæði
20. júní 2018

Segir biathlon geta nýst til að hvetja til hreyfingar

„Við ætlum að nýta biathlon til að hvetja ákveðna hópa til hreyfingar. Greinin höfðar sérstaklega vel til unglinga. Hún býður nefnilega upp á svo margt. Það má sem dæmi blanda þar saman fjallahjólreiðum og skotfimi,“ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

Biathlon eða gönguskotfimi upp á íslensku er ein af rúmlega 30 greinum sem í boði eru á Landsmótinu á Sauðárkróki í júlí. Biathlon er grein sem margir þekkja sem skíðaskotfimi á vetrarólympíuleikum og eru Norðmenn framarlega í greininni. Þegar keppt er í greininni að sumri er henni breytt, ýmist notuð gönguskíði á hjólum, fjallahjól eða annað.

Á Sauðárkróki verður hlaupin ákveðin vegalengd, 800 – 1000 metrar, og stoppað á ákveðnum stöðum og skotið af rafriffli áður en sprett er úr spori á ný. Ef ekki er hitt í mark þarf að hlaupa stuttan refsihring.

Þetta verður í fyrsta sinn á Íslandi sem biathlon er keppnisgrein. Á Landsmótinu verður jafnframt hægt að láta vaða og prófa biathlon.

 

Hægt að prófa alla miðvikudaga

Valdimar stóð fyrir kynningu á biathlon í sólinni á Sauðárkróki í gær. Hann var á meðal þeirra 50 sambandsaðila UMFÍ sem fóru að kynna sér Landsmót DGI í Álaborg í fyrra. Þar sá hann keppni í biathlon og heillaðist af greininni. UMSK keypti rafriffla í kjölfarið og stendur til boða að nýta þá til að hvetja ákveðna hópa til hreyfingar. Valdimar segir frábært hvað hægt er að blanda mörgum greinum saman við skotfimina og gera hreyfingu skemmtilega.

Valdimar segir fólki ekki stafa nein hætta af rafrifflunum sem notaðir eru í biathlon. Þetta séu byssur með ljósi en ekki leysigeisla og því óhætt að nota þá innan um fólk.

Valdimar býður öllum sem vilja upp á að prófa byssurnar og æfa sig í greininni fram að Landsmótinu á Sauðárkróki. Æfingar eru alla miðvikudaga klukkan 17:00 á frjálsíþróttasvæði Breiðabliks.

 

Skráning og meira um Landsmótið

Fleiri myndir frá kynningunni á Sauðárkróki í gær.