Fara á efnissvæði
31. ágúst 2021

Sérstakir frístundastyrkir framlengdir til áramóta

Ákveðið hefur verið að framlengja sérstaka frístundastyrki fyrir börn af tekjulægri heimilum út árið 2021 og er stefnt að því að veita sams konar styrki eftir áramótin. Félagsmálaráðuneytið hefur jafnframt samið við fyrirtækið Abler um að hægt verði að sækja um styrkina með sambærilegum hætti og hefðbundinn frístundastyrk sem sveitarfélög veita eða við skráningu barna í íþróttir og tómstundastarfi í gegnum skráningarkerfið Sportabler, sem margir þekkja.

Markmiðið með sérstökum frístundastyrkjum er að jafna tækifæri þeirra til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Styrkurinn nær til barna sem fædd eru á árunum 2006-2015 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 787.200 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júní 2021. Styrkurinn er 25.000 kr. á hvert barn til áramóta og eiga rúmlega 13.000 börn rétt á styrknum.

Sportabler fer með mikinn meirihluta skráninga í tómstundir og er langyfirgripsmesta forritið þar sem hægt er að skrá tómstundir barna. Markmiðið með samningnum er að ná sem allra víðast og einfalda lífið fyrir sem flesta.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir þetta mikið gleðiefni því rafrænt skráningarferli einfaldi ferlið til muna. 

 

 

„Við vitum að þegar þrengir að fjárhagslega hjá fjölskyldum er hætta á að þær dragi úr þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi, en slík þátttaka hefur  forvarnargildi. Með þessum frístundastyrk erum við að grípa inn með markvissum hætti til að koma í veg fyrir brottfall hjá krökkum í íþróttum og tómstundum,” er haft eftir honum í tilkynningu á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Markús Máni M. Maute, framkvæmdastjóri Abler, segist jafnframt stoltur af því að geta stutt við þetta mikilvæga verkefni.

„Þessi samvinna auðveldar fólki að fá réttmætan stuðning eftir þörfum, og stuðlar að því að sem flestir hafi aðgang að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, sem eins og rannsóknir hafa margoft sýnt - stuðlar að betra samfélag fyrir okkur öll að búa í. Mig langar að hrósa félagsmálaráðuneytinu og þeim stofnunum sem koma að þessu verkefni fyrir framsýnt og lausnamiðað samstarf, og jafnframt þakka fyrir það traust sem okkur er sýnt og gerir okkur þátttakendur í því að stuðla að gagnadrifinni framþróun í lýðheilsumálum á Íslandi.”