Fara á efnissvæði
30. september 2022

Síðasti vinnudagur Valda

Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), kvaddi samstarfsfélaga sína til margra ára í morgunkaffi í Íþróttamiðstöðinni við Engjaveg í morgun. Þetta er síðasti vinnudagur Valdimars hjá UMSK og mun hann snúa sér að öðrum verkefnum. Fjöldi manns kom í kveðjuhófið og þökkuðu honum fyrir samstarfið í gegnum árin. Þau Jóhann Steinar Ingimundarsson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, ásamt fleira starfsfólki kvaddi Valdimar fyrir hönd hreyfingarinnar.

Bíldælingurinn Valdimar er mikill reynslubolti innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann er íþróttafræðingur að mennt og þjálfaði frjálsíþróttir, sund og knattspyrnu á Bíldudal, m.a. þjálfaði hann Völu Flosadóttur, heimsmethafa í stangarstökk á sínum tíma. Hann var framkvæmdastjóri héraðssambandsins Hrafna-Flóka, hann var starfsmaður UMFÍ um árabil og hefur síðastliðin 14 ár verið framkvæmdastjóri UMSK eða frá því í mars árið 2008.

Hann var m.a. framkvæmdastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ þegar það var haldið í fjórða sinn árið 2000 þegar það var haldið á Patreksfirði, Tálknafirði og í Bíldudal en á þeim tíma var ákveðið var að halda mótið um verslunarmannahelgi.

Valdimar er maðurinn á bak við tjöldin í mörgum góðum verkum ungmennafélagshreyfingarinnar og forsprakkinn að mörkum verkefnum aðildarfélaga UMSK og samstarfsverkefna þeirra. Þar á meðal er Skólablakið, verkefni sem snýr að heilsueflingu eldri borgara í Kópavogi og margt fleira.

Á meðal síðustu verka Valdimars í sumar var að fylgja úr höfn viðburðunum í Íþróttaveislu UMFÍ og UMSK, Drulluhlaupi Krónunnar, Hundahlaupi UMFÍ og Non-stop dogwear og Forsetahlaupi UMFÍ.