Sigfús hjá TBR: Gefum öllum kost á aukaæfingum fram á sumarið
Hvernig lýst stjórnendum í ungmenna- og íþróttafélagahreyfingunni á ástandið og hvernig horfir framtíðin við þeim?
„Stjórnendur og þjálfarar hjá TBR reyna að virkja börn og unglinga í félaginu til að gera æfingar heima. Við höfum gert nokkur myndbönd með æfingum sem hægt er að skoða á Facebook og krakkarnir eru hvattir til að senda okkur myndbönd af sér gera æfingarnar. Við veitum þeim síðan verðlaun í hverri viku,“ segir Sigfús Ægir Árnason, framkvæmdastjóri Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur (TBR).
Hvaða jákvæðu þróun sérðu hugsanlega í íþróttahreyfingunni eftir að samkomubanni verður aflétt?
„Eftir að samkomubanni lýkur verðum við hjá TBR að „opna“ badmintonið með einhvers konar átaki. Ég reikna með að flestir verði komnir með talsverða hreyfiþörf þegar við opnum aftur. Við erum með alla möguleika á að hvetja alla félaga okkar áfram. Áhersla verður lögð á að bæta upp alla tapaða tíma og gefa öllum kost á að æfa aukalega þegar þar að kemur, jafnvel eitthvað fram á sumarið.“
Fjallað er ítarlega um áhrif samkomubanns á íþróttastarf og COVID-19 í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Nýjasta tölublaðið - 1. tbl. 2020 - er aðgengilegt á vef UMFÍ.
Þú getur smellt hér og lesið allt blaðið: Lesa Skinfaxa