Fara á efnissvæði
28. mars 2018

Sigurður er nýr formaður UMSE

Talsverðar breytingar urðu á stjórn Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) á ársþingi sambandsins sem fram fór í félagsheimilinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit í síðustu viku. Sigurður Eiríksson var kosinn formaður í stað Bjarnveigar Ingvadóttur, sem gaf ekki kost á sér áfram. Hann, kemur frá Umf. Samherjum og var varaformaður UMSE. Nýr varaformaður var kosin Þorgerður Guðmundsdóttir, Umf. Samherjum. Hún var áður meðstjórnandi UMSE. Þá kom Hólmfríður Gísladóttir, Sundfélaginu Rán, ný inn í stjórn UMSE sem meðstjórnandi og Kristlaug Valdimarsdóttir, Umf. Smáranum, inn í stjórn UMSE sem ritari. Kristlaug hefur gegnt því embætti áður.

Endurkjörin í varastjórn UMSE voru þau Guðrún Sigurðardóttir, Umf. Svarfdæla og Björgvin Hjörleifsson, Skíðafélagi Dalvíkur en ný inn kemur Edda Kamilla Örnólfsdóttir, Hestamannafélaginu Funa. Gjaldkeri stjórnar UMSE, Einar Hafliðason Umf. Þorsteini Svörfuði, er sá eini úr stjórn sem heldur sínum störfum áfram.

Á þinginu var fimm einstaklingum veitt heiðursviðurkenning frá UMSE. Þau Stefán Friðgeirsson, Guðrún Erna Rúdolfsdóttir og Christina Niewert Hestamannafélaginu Hring og Jónína Guðrún Jónsdóttir Umf. Svarfdæla hlutu starfsmerki UMSE. Kristjáni Ólafssyni formanni Umf. Svarfdæla var veitt gullmerki UMSE fyrir störf sín í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála. Stefáni Garðari Níelssyni, formanni knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis var veitt starfsmerki UMFÍ. 

Guðmundi Steindórssyni var síðan færður þakklætisvottur frá stjórn UMSE fyrir störf í tengslum við skráningu gamalla gagna, flokkun skjala og að koma þeim í varðveislu á héraðsskjalasafnið.

Á þinginu var samþykkt tillaga þar sem UMSE beinir því til aðildarfélaga sinna að þau gangi úr skugga um að þjálfarar og þeir aðilar sem stýra íþróttastarfi í félögunum séu með hreint sakavottorð. Það verði gert með því að óska eftir skriflegu samþykki viðkomandi þess efnis að fá aðgang að upplýsingum úr sakaskrá. UMFÍ mun aðstoða félögin við þetta eins og á þarf að halda.

 

Ítarlegri upplýsingar um ársþingið á vefsíðu UMSE