Fara á efnissvæði
22. mars 2020

Sigurður hjá UMSB: Hugsa í lausnum og færa athyglina á það jákvæða

Sambandsaðilar UMFÍ og aðildarfélög standa frammi fyrir ýmis konar áskorunum í starfi sínu til að draga úr útbreiðslu COVID-19 faraldursins. En hvernig er brugðist við? Hér segir Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) frá því hvernig brugðist er við þar á bæ.

 

Nú standið þið frammi fyrir ýmiss konar áskorunum hvað varðar starfið hjá ykkur. Hvernig hafið þið verið að leyst þetta?

Það fyrsta sem við gerðum var að halda fund með formönnum þeirra félaga og/eða deilda sem eru með skipulagt starf í gangi hjá okkur. Farið var yfir stöðuna og ákveðið að fara í öllu eftir tilmælum frá yfirvöldum. Mikilvægt er að halda stillingu og vaða ekki út í aðgerðir nema að mjög vel ígrunduðu máli. Til að koma til móts við iðkendur okkar og brýna fyrir þeim mikilvægi þess að þeir haldi áfram að hreyfa sig tókum við strax upp stutt myndbönd þar sem sýndar eru æfingar sem hægt er að gera inni í sofu heima eða úti í náttúrunni. Það er mikilvægt að íþróttamenn nýti öll tiltæk ráð og tækifæri til að halda sér við. Allar deildir og félög UMSB munu gera myndbönd til að hvetja til hreyfingar á meðan ástand Covid 19 ríkir.

 

 

Eru áskoranirnar misjafnar eftir íþróttagreinum og / eða aldurshópum?

Eins og staðan er í dag látum við jafnt ganga yfir alla. Enn er opið í líkamsrækt þannig að eldri krakkar geta farið þangað til að æfa sig. Við brýnum fyrir þeim mikilvægi eigin hreinlætis og að þrífa vel tækin og svæðin eftir sig. Margir gera æfingar heima og fara út að hlaupa. Þannig að núna gefst iðkendum tækifæri til að hugsa í lausnum, efla sjálfsagann og styrkja um leið andlegu hliðina til að halda einbeitingu á fordæmalausum tímum.

 

Sjáið þið fyrir ykkur að nýta tæknina og / eða samfélagsmiðla í meira mæli næstu vikurnar?

UMSB nýtti sér strax samfélagsmiðla til að koma skilaboðum til iðkenda. Einnig er verið að vinna efni sem fer inn á Sportabler kerfið sem við notum sem samskiptavettvang við þjálfara, iðkendur og aðstandendur. 

 

 

Hvernig nærir þú sjálf/ur líkama og sál þessa dagana?

Ég legg mig fram um að halda ró í þessu ástandi og tileinka mér æðruleysi og jákvæðni. Ég skora á sjálfan mig að hugsa í lausnum og færa athyglina á það jákvæða sem hægt er að gera í þessu ástandi. Ég gæti þess að hreyfa mig til að fá útrás og gleyma stund og stað. Reiðtúr í fallegri náttúru Borgarfjarðar er mín besta afþreying. En það felst líka mikil hugarró í því að fara út í náttúruna og njóta hennar með mínum nánustu. 

 

Óraði fyrir þér að þú ættir eftir að standa frammi fyrir svona ástandi?

Nei, aldrei. Þetta eru fordæmalausar aðstæður. Mig hefði aldrei grunað að sú staða kæmi upp að allt íþróttastarf myndi leggjast af á 21.öldinni vegna farsóttar. Núna sýnir það sig hversu mikilvægt starf íþróttahreyfingin er fyrir alla aldurshópa. Bæði sem líkamsrækt, félagsskapur, andleg næring og áhugamál. Íþróttir tengja fólk saman um allan heim. Það stunda allir íþróttir á sama tungumáli. Allt þetta hefur verið sett á hliðina og ekki vitað hversu lengi ástandið varir. Við leggjum þó áherslu á að vera jákvæð og vinna að því að finna fjölbreyttar og farsælar lausnir fyrir iðkendur okkar og það gengur ákaflega vel.