Sigurður Óskar og Halldór sæmdir starfsmerki UMFÍ
Halldór Einarsson og Sigurður Óskar Jónsson voru báðir sæmdir starfsmerki UMFÍ á ársþingi Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) sem fram fór á Höfn í Hornafirði á miðvikudag.
Halldór hefur setið í stjórn Ungmennafélagsins Mána, aðildarfélags USÚ, síðan árið 1999.
Sigurður hefur verið gjaldkeri USÚ síðan árið 2011, gegnt öllum stöðum í stjórn Mána nema gjaldkerastöðu síðan árið 2005 og setið í varastjórn UMFÍ frá árinu 2015.
Gunnar Gunnarson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) og stjórnarmaður í UMFÍ, var gestur á þinginu og sæmdi þá Sigurð Óskar og Halldór starfsmerkjum UMFÍ.
Þetta var 86. þing USÚ og fór það fram í Heklu, nýju félagsheimili ungmennafélagsins Sindra á Höfn. Þingið var ágætlega sótt, 33 fulltrúar af 46 mættu frá flestum félögum. Engin breyting varð á stjórn félagsins og var Jóhanna Íris Ingólfsdóttir endurkjörinn formaður.
Áður en þingið var sett minntist Jóhanna Íris tveggja félaga sem féllu frá á árinu 2018. Það voru þeir Hreinn Eiríksson, annar tveggja heiðursfélaga USÚ frá upphafi, formaður USÚ 1963-1965 og máttarstólpi í starfi Umf. Mána um áratugaskeið; og Kristján Vífill Karlsson sem var sannkölluð fyrirmynd sjálfboðaliða, sem um áratugaskeið vann óeigingjarnt sjálfboðalið fyrir hinar ýmsu deildir Umf. Sindra, Golfklúbb Hornafjarðar og önnur félög innan USÚ.
Ýmislegt er á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður um verslunarmannaheldinga. Mikið púður hefur farið í undirbúning Unglingalandsmótsins. Búið er að manna allar helstu stöður í undirbúningsnefndinni, auk þess sem flestir sérgreinastjórar hafa verið valdir.
Á þinginu var fólk hvatt til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður í Neskaupstað 28.-30. júní, á Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn. Tillagan fól í sér hvatningu til ungmennafélaga að taka þátt í almenningsíþróttaverkefnum á vegum UMFÍ og ÍSÍ.
Ungmennafélagi fram í fingurgóma
Sigurður Óskar Jónsson er ungmennafélagi fram í fingurgóma. Sigurður er frá bænum Stapa í Bjarnaneshverfi og hefur frá unga aldri unnið mikið starf fyrir Ungmennafélagið Mána í Nesjum og Ungmennasambandið Úlfljót, sambandsaðila UMFÍ. Sigurður hefur tekið virkan þátt í starfi ungmennafélagsins, bæði sem formaður og sem ritstjóri málgagnsins Vísis. Þótt hann sé ekki mikill íþróttamaður sjálfur þá finnur enska úrvaldsdeildarfélagið Manchester United varla dyggari stuðningsmann. Leið Sigurðar er ekki í gegnum íþróttir, félagsstarfið er hans leið og þar er hans fádæma styrkleiki.
Sigurður hefur verið í stjórn Mána í Nesjum, er í stjórn Ungmennafélagsins Úlfljóts og setið í landsmótsnefndum. Eins og áður er upp talið er ástæðan augljós. Hann er ákaflega traustur ungmennafélagi og tilbúinn til að leggja sitt af mörkum, reglusamur og vill að utanumhald sé í reglu. Sigurður er í dag gjaldkeri Ungmennasambandsins Úlfljóts og situr í varastjórn UMFÍ.
En aftur að félagsstarfinu. Sigurður er grúskari að eðlisfari en lætur ekki mikið fyrir sér fara. Ef hann veit ekki það sem á þarf að halda hverju sinni þá veit hann hvar svarið er að finna. Hann gefur sér tíma til að gera hlutina eftir þeim formerkjum sem þeir eiga að vera og eftir þeim ramma sem hreyfingunni eru settar. Hann er ávallt reiðubúinn til félagsstarfa og er það ákaflega góður kostur því gott er til hans að leita. Sigurður Óskar er sönnun þess þegar hugað er til framtíðar að fólk þarf ekki að vera afreksfólk í íþróttum því kraftar tryggra öðlinga eins og Sigurðar nýtast afspyrnuvel í félagsstarfi. Slíkt er nefnilega ekki sjálfgefið.
Halldór mætir fyrstur
Halldór Einarsson er fæddur árið 1967. Hann er félagi í ungmennafélaginu Mána í Nesjum. Eins og sonur hans lýsti því, þá hefur hann hreinlega alltaf verið það. Halldór kom inn í stjórn Mána á aðalfundi árið 1999 og hefur verið þar óslitið síðan, ýmist sem varaformaður eða meðstjórnandi.
Ef einhver viðburður er hjá Mána er hann yfirleitt mættur fyrstur, hvort sem það er gönguferð á 17. júní, þrettándabrenna eða frjálsíþróttamót. Ef það er ekki nóg fyrir ykkur, þá er hann líka yfirleitt mættur fyrstur ef nágrannar eða sveitungar þurfa á aðstoð að halda, byggja hús, skipta um þak, taka upp kartöflur eða rýja kindur. Liðtækari mann er því varla hægt að finna.