Fara á efnissvæði
25. mars 2021

Sigurjón sæmdur gullmerki UMFÍ

Sigurjón Sigurðsson, formaður aðalsstjórnar HK, var sæmdur gullmerki UMFÍ á aðalfundi HK í gær. Á sama fundi hætti hann sem formaður eftir mjög langt starf hjá HK. Við formannsstólnum tók Pétur Örn Magnússon.

Jóhann Steinar Ingimundarson, varaformaður UMFÍ, afhenti Sigurjóni gullmerkið.

Gullmerki UMFÍ er veitt af stjórn UMFÍ til handa þeim sem hafa um árabil unnið öflugt starf fyrir ungmennafélagshreyfinguna, verið í forystu í héraði eða á vettvangi UMFÍ eða í áratugi unnið ötullega að eða tekið þátt í verkefnum UMFÍ.

 

Tengdur íþróttum frá barnsaldri

Jóhann sagði Sigurjón stíga nú niður eftir óeigingjarnt starf í áratugi. Jóhann rifjaði upp að ferill Sigurjóns innan HK hafi byrjað þegar hann byrjaði að iðka knattspyrnu 10 ára gamall með ÍK. Sigurjón spilaði svo með liðinu allt upp í meistaraflokk.

Sigurjón var kosinn varamaður í stjórn árið 1990 og formaður 1992. Sigurjón kom að sameiningu HK og ÍK ásamt stofnun knattspyrnudeildar HK árið 1992 og settist þar í formannssæti ásamt því að vera varaformaður í aðalstjórn HK. Hann varð formaður aðalstjórnar HK árið 2006 og hefur verið það síðan eða í 15 ár.

„Því er ekki annað hægt að segja en Sigurjón eigi stóran þátt í því hvar HK sem eitt af stærstu íþróttafélögum landsins er statt í dag,“ sagði Jóhann Steinar og þakkaði honum persónulega fyrir samstarfið í gegnum árin og ekki síður fyrir félagsskapinn sem þeir hafi átt á fjölmörgum vígstöðvum.