Sjálfboðaliðar
Mikið er framundan hjá UMFÍ í sumar í samvinnu við sambandsaðila, aðildarfélög og marga fleiri. Þar á meðal eru Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina og Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi. Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða kemur að viðburðunum.
Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, og Jóhann Steinar Ingimundarson, varaformaður UMFÍ, skrifuðu grein í Fréttablaðinu í vikunni um mikilvægi sjálfboðaliðastarfsins fyrir UMFÍ og vinnuna sem er í gangi í ungmennafélagshreyfingunni til að bæta umgjörð sjálfboðaliða.
Hér má lesa greinina í heild sinni:
Sjálfboðaliðar
Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) var stofnað á Þingvöllum árið 1907 af sjálfboðaliðum. Nú rúmum hundrað árum síðar er krafturinn sem keyrir ungmennafélagshreyfinguna áfram enn fenginn frá sjálfboðaliðum.
Það er mikið fram undan hjá okkur í UMFÍ í sumar í samvinnu við héraðssambönd, íþróttafélög og sveitarfélög víða um land. Þessa dagana vinnum við að undirbúningi Unglingalandsmóts UMFÍ um verslunarmannahelgina á Selfossi með Héraðssambandinu Skarphéðni og sveitarfélaginu Árborg. Í Borgarnesi stendur svo yfir undirbúningur að Landsmóti UMFÍ 50+ í samstarfi við Ungmennasamband Borgarfjarðar og sveitarfélagið Borgarbyggð. Mótið er skemmtilegur vettvangur fyrir allt fólk sem fagnar fimmtugsafmæli á árinu og þá sem eldri eru.
UMFÍ er landssamband ungmennafélaga og innan þess eru rúmlega 450 íþrótta- og menningarfélög um allt land og koma sjálfboðaliðar að starfsemi þeirra allra – allt árið um kring. Þeir eru í gæslu, stýra mótahaldi, selja í sjoppunni og styðja við starfið á marga vegu. Sérstaklega má nefna nýlegt dæmi sem sýnir kraftinn í starfi sjálf boðaliðanna sem lögðu á sig ómælda vinnu við að gera byggingu íþróttahúss á Egilsstöðum að veruleika – já, starfið er fjölþætt.
Oft heyrist að erfiðara sé að fá fólk til sjálf boðaliðastarfa. Sem betur fer finnum við hjá UMFÍ enn að margir vilja leggja hönd á plóg og nýta frítíma sinn til að gera viðburði barna sinna og annarra að skemmtilegri upplifun.
Sjálfboðaliðar sækja þangað sem regluverkið er traust, fólk veit að hverju það gengur og hver og einn veit stöðu sína og hlutverk. Þess vegna vinnum við hjá UMFÍ stöðugt að því að bæta umhverfi sjálfboðaliða.
Nú er í gangi umfangsmikil stefnumótunarvinna sem mun styrkja UMFÍ og íþróttahéruð landsins, efla þau og treysta til að sinna sjálf boðaliðunum sem vilja leggja sitt af mörkum.
Sjálfboðaliðarnir eru aflið sem við verðum að huga að og halda utan um því þeir vinna að því að bæta starf hreyfingarinnar, samfélaginu til góða. Það er ungmennafélagsandinn í hnotskurn.