Sjálfboðaliðar byggðu íþróttahús sem vekur eftirtekt
Ný viðbygging við íþróttahúsið á Egilsstöðum var opnað með formlegum hætti í dag. Íþróttafélagið Höttur byggði húsið í samvinnu við sveitarfélag Fljótdalshéraðs. Það er þúsund fermetrar að stærð og sérstaklega ætlað fyrir fimleika og frjálsar íþróttir.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra voru viðstödd athöfnina ásamt Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ og Hafsteini Pálssyni frá ÍSÍ.
Fram kemur í umfjöllun fréttamiðilsins Austurfréttar að menntamálaráðherra hafi sagt verkið sýna samheldni sem eftir væri tekið á landsvísu.
Íþróttafélagið Höttur er aðildarfélag Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA), sem er sambandsaðili UMFÍ.
Fólk gerir stórkostlega hluti saman
Við athöfnina vitnaði Guðni í Hrafnkelssögu Freysgoða og Hefnendurna, eða The Avengers, í ræðu sinni. Í erindi sínu rifjaði hann upp að leiðtogi Hefnendanna hefði sagt að þar hefði kviknað sú hugmynd að hóa saman fólki og sjá hvort það gæti ekki gert eitthvað stórkostlegt saman. Það sama mætti sjá í fimleikahúsinu á Egilsstöðum. Þá hefði Hrafnkell Freysgoði lagt áherslu á að ráðdeild væri dyggð og húsið væri sönnun þess.
Auður Inga sagði framkvæmdina ungmennafélagsandann í hnotskurn og hringi nú margir sérfræðingar að sunnar austur til að læra af fordæmi Hattarfólks. Íþróttahreyfingin í heild myndi hagnast á því þegar svarað væri í símann fyrir austan.
Húsið langt á undan áætlun
Kostnaður við byggingu íþróttahússins er lægri en alla jafna. Í umfjöllun Austurgluggans segir að með því að íþróttafélagið Höttur haldi utan um framkvæmdina tókst að reisa íþróttahúsið með ódýrari hætti en ella. Hluti af skýringunni liggur líka í því að hluti þeirra sem komu að verkinu gáfu vinnu sína í þágu Hattar.
Skóflustunga að íþróttahúsinu var tekin haustið 2018 og var það svo tekið í notkun ári fyrr en áætlað var. Sveitarfélagið leggur 220 milljónir króna til verksins.
Auður Inga hrósaði félagsmönnum Hattar og UÍA fyrir framkvæmdina. Áætlanir hafi staðist og verkið á undan áætlun. Þá hafi framlag sjálfboðaliða verið mikið.
Benti hún á að oft sé ráðist í dósasöfnun til að fjármagna hins ýmsu verk. Til samanburðar hafi íþróttahúsið kostað 13.750.000 dósir – eða það sama og 8.800 fimleikabúningar kosta.
Við athöfnina afhenti Auður Inga nöfnu sinni, Auði Völu Gunnarsdóttur, yfirþjálfara fimleikadeildar Hattar, grímur í stað blóma. Hún afhenti líka Auði Völu og Davíð Þór Sigurðarsyni, formanni íþróttafélagsins Hattar, starfsmerki. Ástæðan fyrir því að grímur voru gefnar í stað blóma var sú að Auður Vala sagði á þingi UÍA á dögunum fimleikadeild Hattar hafa varið háum fjárhæðum í kaup á sóttvörnum, svo sem spritti og grímur til að verjast smitum af völdum COVID-19.
Gestir í salnum stóðu á fætur þeim til heiðurs.
Hér að neðan má sjá myndir af vígslu íþróttahúsins sem m.a. Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA tók. Þar á meðal þau Auði völu, Davíð Þór og Guðna Th Jóhannesson, forseta Íslands ásamt Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, klippa á borða og opna húsið.