Fara á efnissvæði
03. ágúst 2022

Skítugasta hlaup ársins í Mosfellsbæ

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir Drullu- og hindrunarhlaup Krónunnar sem verður haldið í Mosfellsbæ laugardaginn 13. ágúst. Hlaupið verður eftir 3,5 kílómetra braut með hvorki fleiri né færri en 21 hindrun, skurðum, hliðum, hólum og hæðum.

Í brautinni verður meðal annars geysilega löng rennibraut sem búin er til úr íþróttahúsi Hamars í Hveragerði.

Þetta er stuttur viðburður og verður aðeins haldinn frá klukkan 11:00 – 14:00.

Drullu- og hindrunarhlaup Krónunnar er upplagt fyrir fjölskyldur, vini og vinnustaðahópa sem hafa drullugaman af því að hlaupa saman og hjálpast við að komast í gegnum skemmtilega þrautabraut sem enginn ræður einn við. Fólk þarf að vinna saman til að komast alla leið!

 

Drulluskemmtilegt fjölskylduhlaup

Hlaupaleiðin er skemmtileg og krefjandi en þó eiga allir, 8 ára og eldri, að komast í gegnum hana með aðstoð foreldra og/eða forráðamanna.

Ræst verður út í hópum, með fimm mínútna millibili , byrjað verður að ræsa út kl 11:00 og fær hver þátttakandi úthlutuðum rástíma.

Rás- og endamark er staðsett við Íþróttahúsið við Varmá og þar verður partýstemning frá því að hlaupið hefst og þar til því lýkur. Alla leiðina geta afi og amma og frændur og frænkur, vinir og vinnufélagar sem þora ekki að skíta sig út stutt við keppendur.

Viðburðurinn er fyrir alla fjölskylduna og eða einstaklinga þar sem tíminn skiptir ekki máli heldur er markmiðið að hafa gaman af því að komast í gegnum allar hindranirnar á leiðinni. Áhersla er lögð á skemmtilega hreyfingu, gleði og samvinnu.

 

Skítugasta veislan

Drullu- og hindrunarhlaup Krónunnar er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ og 100 ára afmæli UMSK. Drulluskemmtilegt hlaup þar sem fjölskyldan vinnur saman að því að komast í mark í skítugasta hlaupi ársins í Mosfellsbæ. Krónan styður vel við hlaupið og tryggir fjörið með allskonar hætti. Hlaupið er líka haldið í samstarfi við frjálsíþróttadeild Aftureldingar í Mosfellsbæ.

Það er bókað mál að þátttakendur í Drullu- og hindrunarhlaupi Krónunnar munu ekki finna jafn skemmtilegan viðburð á árinu!

 

Hvar skrái ég fjölskylduna og vinnufélagana?

Þátttökugjald er eftirfarandi:

Einstaklingsskráning: 2.500 kr fyrir hvern þátttakanda

Hópskráning (4 í hóp): 6.000 kr fyrir hvern 4. manna hóp. Notið kóðann DRULLUHOPUR í reitinn „Afsláttarkóði“ þegar þið skráið ALLAN hópinn í einu.

 

Smelltu á hlekkinn og skráðu þig og fjölskylduna, vinnuhópinn og frænkurnar í Drullu- og hindrunarhlaup Krónunnar: 

Skrá okkur í hlaupið