Fara á efnissvæði
25. ágúst 2023

Skólaárið undirbúið á Reykjum

„Það er mjög góð stemning með nýju fólki í flottum starfsmannahópi, hann er þéttur og tilbúinn að skapa góða upplifun fyrir nemendur í vetur,‟ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skólabúða UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði. Hann var í óða önn ásamt starfsfólki búðanna að gera klárt fyrir næstu viku þegar fyrsti hópur nemenda í sjöunda bekk frá Vestfjörðum koma í Skólabúðirnar.

Þrír nýir starfsmenn hafa bæst í hópinn frá því í fyrra og vinna nú níu í Skólabúðunum ásamt Sigurði. Þau nýju eru Ingimar Oddsson, Rannveig Aðalbjörg Hjartardóttir og Hulda Signý Jóhannesdóttir. Fyrir voru þau Luís Augusto Aquino, Gísli Kristján Kjartansson kokkur, aðstoðarkona hans Oddný Bergsveina Ásmundsdóttir auk þeirra Elmars Davíðs Haukssonar og Róberts Júlíussonar.

 

Umfangsmiklar endurbætur

UMFÍ tók við rekstri Skólabúðanna á Reykjum fyrir rétt rúmu ári. Þá samstundis var ráðist í gríðarlega umfangsmiklar endurbætur á öllu húsnæðinu með iðnaðarfólki á vegum sveitarfélagsins. Skólabúðirnar eru í nokkrum skemmtilegum húsum á Reykjum, þar á meðal í eftirtektarverðu húsi sem Guðjón Samúelsson, einn þekktasti byggingameistari ríkisins, teiknaði.

Fyrstu nemendurnir komu svo í Skólabúðirnar í byrjun haustmisseris fyrir ári og er þetta því annað skólaárið sem UMFÍ stýrir starfseminni á Reykjum.

Árlega heimsækja um 3.200 nemendur í 7. bekk af öllu landinu búðirnar og dvelja þar frá mánudegi til fimmtudags. Í Skólabúðunum á Reykjum er unnið markvisst að því að efla félagsfærni nemenda og gefa þeim tækifæri til að finna styrkleika sína, vinna með þá og styrkja leiðtogafærni sína.

 

Nýtt skólaár framundan

Heilmikil vinna hefur farið í undirbúning fyrir komandi skólaár. Sigurður segir að þótt mikið sé búið að gera í húsunum þá hafi verið ákveðið að halda áfram með framkvæmdir í sumar. Nú er búið að skipta um alla glugga í heimavist Skólabúðanna, skipt um gólfefni á stórum hluta allra húsa og verður unnið áfram í húsnæðinu öllu í vetur.  

„Við ætlum að gera enn betur í vetur og lagfæra meðal annars aðstöðuna fyrir kennara og aðra sem hingað koma,‟ segir hann og bætir við að mikil eftirspurn hafi verið eftir því að leigja aðstöðu Skólabúðanna á Reykjum utan skólatíma, um helgar, á frídögum og í sumar.

 

Allar frekari upplýsingar um Skólabúðir UMFÍ má finna hér