Fara á efnissvæði
03. júlí 2019

Skráning hafin á Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði

Skráning er hafin á Unglingalandsmót UMFÍ. Þjóðin þekkir auðvitað Unglingalandsmót UMFÍ enda er þetta frábær vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð sem haldin er á hverju ári um verslunarmannahelgina. Unglingalandsmótið er að þessu sinni fram á Höfn í Hornafirði dagana 1.-4. ágúst.

Á Unglingalandsmót UMFÍ koma saman þúsundir barna og ungmenna ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá alla verslunarmannahelgina.

Mótið er fyrir börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára sem vilja reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Samhliða því er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna og alla aldurshópa.

Þátttakendur á Unglingalandsmóti UMFÍ þurfa hvorki að vera skráðir í ungmenna- né íþróttafélag. Ef viðkomandi vill taka þátt í hópíþrótt, knattspyrnu, körfubolta eða annarri grein en er ekki í liði þá er hann eða hún sett í lið með jafnöldum sínum víða að frá landinu. Með þessu móti er mótið vettvangur nýrra kynna og gleði þar sem allir hafa kost á að njóta þess að taka þátt í íþróttum og hreyfingu.

 

Íþróttir og tónlist heila helgi

Á mótinu er boðið upp á keppni í 20 greinum. Þær eru biathlon, sem margir þekkja sem hlaupaskotfimi, bogfimi, fimleikalíf og fimleikar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur. 

Á Unglingalandsmóti UMFÍ verður boðið upp á íþróttakeppni og afþreyingu alla verslunarmannahelgina á Höfn. Öll kvöldin klukkan 21:00 verða kvöldvökur. Á þeim koma fram eldsprækir tónlistarmenn eins og DJ Sura, Evróvisjónstjarnan Daði Freyr,  Bríet, Úlfur Úlfur og Salka Sól, GDRN og Una Stef. 

 

Alla dagskránna er hægt að sjá á vefsíðunni www.ulm.is

Keppnisgreinar má sjá hér

Hér skráir þú á Unglingalandsmót UMFÍ