Fara á efnissvæði
12. ágúst 2020

Snertingar heimilar á æfingum og í keppnum íþróttafólks

Nýjar reglur um takmörkun á samkomum vegna COVID-19 taka gildi föstudaginn 14. ágúst 2020. Helsta breytingin er sú að þrátt fyrir meginregluna um 2 metra nálægðartakmörkun verða snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum.

Aftur á móti skal virða 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu ávallt virða 2 metra regluna.

Fjöldatakmörk miðast áfram við 100 manns að hámarki. Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.

Börn fædd árið 2005 eða síðar eru áfram undanskilin ákvæðum 3. gr. auglýsingarinnar sem snúa að fjöldatakmörkun og 4. gr. um almenna nálægðartakmörkun.

Í auglýsingu heilbrigðisráðherra segir að ÍSÍ skuli setja sérsamböndum sínum nánari reglur í samráði við sóttvarnalækni, meðal annars um einstaklingsbundnar sóttvarnir, sótthreinsun búnaðar, framkvæmd æfinga og keppna.

Að öðru leyti gildir áfram meginreglan um 2 metra nálægðarmörk. Við aðstæður þar sem eðli starfsemi krefst meiri nálægðar milli einstaklinga en tveggja 2 metra og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur skal nota andlitsgrímu. Hjúkrunarheimilum, öðrum heilbrigðisstofnunum og sambærilegum stofnunum er gert skylt að setja reglur um starfsemi sína, svo sem um heimsóknir utanaðkomandi að heimilum og stofnunum.