Fara á efnissvæði
11. janúar 2022

Sömu samkomutakmarkanir í þrjár viku í viðbót

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tillögu sóttvarnarlæknis að núgildandi takmarkanir á samkomum innanlands verði framlengdar um þrjár vikur eða til 2. febrúar 2022. Núgildandi reglur áttu að renna út á miðnætti miðvikudaginn 12. janúar.

Samhliða nýrri reglugerð um samkomutakmarkanir hefur verið sett sérstök reglugerð um skólastarf. Það var gert á fyrri stigum COVID-faraldursins.

 

Reglurnar í hnotskurn:

Almennar fjöldatakmarkanir eru 20 manns: Á sitjandi viðburðum er þó heimilt að hafa allt að 50 manns í hólfi ef gestir eru sitjandi, noti andlitsgrímur og viðhafi eins metra fjarlægðartakmörk. Óheimilt er að selja áfengisveitingar og gestir skulu halda kyrru fyrir í sætum sínum eins og kostur er.

Hraðpróf og skipulagðir viðburðir: Heimilt er að skipuleggja viðburði fyrir allt að 200 manns. Gestum á slíkum viðburðum er skylt, þrátt fyrir hraðpróf, að bera grímu. Gestum ber að viðhafa eins metra nálægðartakmörkun og óheimilt verður að selja áfengisveitingar. Gestir skulu halda kyrru fyrir í sætum sínum eins og kostur er.´

Heilsu- og líkamsræktarstöðvar og sund- og baðstöðvar: Heimilt er að hafa opið fyrir 50% af hámarksfjölda leyfilegra gesta. Sameiginlegan búnað skal sótthreinsa milli notenda.

Skíðasvæði: Heimilt er að hafa opið fyrir 50% af hámarksfjölda gesta. Gætt verði að tveggja metra reglu og grímuskylda er í gildi ef ekki er unnt að tryggja gildandi fjarlægðartakmörk.

Grímuskylda í verslunum og í verslunarmiðstöðvum: Grímuskyldan gildir einnig þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra nálægðartakmörk milli ótengdra einstaklinga. Þar undir falla meðal annars heilbrigðisþjónusta, almenningssamgöngur, söfn, hágreiðslustofur og önnur sambærileg starfsemi.

Veitingastaðir, skemmtistaðir og krár mega hafa opið til 21: Undir takmörkunina falla veitingastaðir sem selja áfengisveitingar. Allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn klukkan 22.

Einkasamkvæmi: Óheimilt er að halda einkasamkvæmi eftir klukkan 22 á stöðum sem hafa vínveitingaleyfi. Einnig er óheimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum sem ætla má að dregið gætu að sér fólk eftir klukkan 22.