Fara á efnissvæði
20. nóvember 2020

Soffía: Ungmennaráð gefur ungu fólki tækifæri til þess að láta rödd sína heyrast

Soffía Meldal situr í Ungmennaráði UMFÍ. Hún var á meðal þeirra sem skrifuðu fyrstu skýrsluna um stöðu barna til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna er staðsett í Genf og hefur eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans í aðildarríkjunum. Í dag er afmæli Barnasáttmála SÞ en hann var lögfestur hér á landi árið 2013.

Meira um Barnasáttmála SÞ á vefsíðu Umboðsmanns barna

Soffía er í fjölda ungmennaráða og segir það gefa sér mikið. Ritstjórnin heitir Umbi og dregur nafn sitt af sögupersónunni Umba, umboðsmanni biskups í bókinni Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness. En hvernig kom það til að Soffía fór í stjórn Umba og fór að vinna að þessu brautryðjandaverki?

„Ég sat í Ungmennaráði Samfés 2018–2019 og var þar fulltrúi Ungmennaráðs Dalabyggðar. Það var svo Samfés sem tilnefndi mig í Umba í byrjun sumars árið 2019. Ritstjórnin hóf vinnu að barna skýrslunni árið 2018 en svo árið 2019 óskuðu þau eftir fulltrúum frá ungmennaráðunum sem mynduðu Umba. Ritstjórnin ákvað efnistök skýrslunnar og framkvæmd, hlutverk hennar var þá einnig að sjá um upplýsingaöflun og hún bar ábyrgð á skipulagi og skilum skýrslunnar. En þar sem þetta var í fyrsta skipti sem Íslendingar skiluðu svona skýrslu höfðum við ekkert til að vinna út frá. Verkefnið þróaðist svo hægt en örugglega og afraksturinn varð skýrsla og mynd band byggð á reynslu og áhyggjum barna á Íslandi. Að lokum afhent um við svo lokaafurðina til Barnaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem mun notast við hana sem hluta af reglubundnu eftirliti um innleiðingu Barnasáttmálans á Íslandi. Afhending skýrslunnar fór fram í gegnum fjarfund í ljósi aðstæðnanna en það var samt sem áður mjög áhugavert og gott að fá að hitta nefndina og tala við þau um stöðu málefna sem varða börn og ungmenni á Íslandi.“

Hvað þarf til að komast í svona verkefni?

„Maður þarf fyrst og fremst að hafa áhuga. Allir geta verið í ungmennaráðum ef áhuginn er til staðar. Ég sit í mörgum ungmennaráðum, Ungmennaráði Samfés, ritstjórninni Umba og líka í Ungmennaráði Dalabyggðar, Ungmennaráði UMFÍ, Ungmennaráði Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennaráði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Ef ég get setið í þessum ráðum og tekið þátt í þessum félagsstörfum geta það allir. Fyrsta skrefið er að sýna áhuga og sækja um!“ segir hún.

 

Hvað gefur það þér að sitja í þessum ráðum og sinna vinnunni?

„Það gefur mér heilmikið að vera í ungmennaráðum og stjórn Umba. Ég hef lært svo mikið af þessu sem mun nýtast mér alla ævi. Ungmennaráð gefur ungu fólki tækifæri til þess að láta raddir sínar heyrast í samfélaginu. Ungt fólk getur alltaf leitað til ungmennaráðsins síns ef það verður fyrir ranglæti, því finnst að ekki sé hlustað á skoðanir þess eða með hvað sem er, sem liggur því á hjarta. Það er mjög gefandi að fá að hafa áhrif þegar kemur að málefnum sem varða ungt fólk og skipta okkur máli.“

Ein spurning að lokum: Er einhver fyrirmynd í umhverfi þínu sem skýrir ástæðuna fyrir því að þú fórst í Ungmennaráð Dalabyggðar og ert svona virk?

„Já, heldur betur. Hún Elísabet Ásdís Kristjánsdóttir er algjör fyrirmynd mín, sérstaklega þegar kemur að félagsstörfum og ungmennaráðum. Hún sá um félagsmiðstöðina okkar í Búðardal og hjálpaði okkur í ungmennaráðinu mikið. Hún sat líka í Ungmennaráði UMFÍ og nú í stjórn UMFÍ og ég lít mikið upp til hennar.“

 

Um hvað er skýrslan?

Íslensk ungmenni sendu í september sl. í fyrsta sinn skýrslu um stöðu barna á Íslandi til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Börn á Íslandi unnu skýrsluna um málefnið sem var kynnt nefndinni. Þetta var í fyrsta sinn sem börn á Íslandi sendu eigin skýrslu til nefndarinnar.

 

 

Barnaskýrslan var kynnt samhliða skýrslu níu frjálsra félagasamtaka um stöðu mannréttinda barna á Íslandi og það hvernig stjórnvöldum gengur að uppfylla Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Málefnin, sem voru efst á baugi í barnaskýrslunni, voru geðheilbrigðismál, samskipti barna við lögreglu, kynferðislegt ofbeldi, ofbeldi á netinu, staða fatlaðra barna, aðgengi að eiturlyfjum, hinsegin börn og börn með fjölbreyttan menningarlegan og tungumálabakgrunn. Markmið höfunda skýrslunnar var að raddir allra barna á Íslandi heyrist og að börn á Íslandi fái tækifæri til að láta skoðun sína í ljós til að bæta landið og breyta því fyrir börn á þeim tímum sem við lifum og börn framtíðarinnar.

Skýrsluskrifin fóru fram með þeim hætti að ritstjórn var sett saman árið 2018 og kallaði hún eftir fulltrúum frá ungmennaráðum um allt land. Í verkefnahópinn bættust sex börn yngri en 18 ára sem saman mynduðu Félag um barnaskýrslu til Barnaréttar Sameinuðu þjóðanna. Því til viðbótar var haft samráð við börn og ungmenni um allt land og viðtöl tekin við fagfólk. Skýrslan vakti gríðarlega athygli og fjölluðu allir helstu fjölmiðlar Íslands um hana. Ritstjórn Umba fékk aðstöðu í þjónustumiðstöð UMFÍ við kynningu á skýrslunni og til að taka þátt í fundinum með Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna.