Fara á efnissvæði
21. maí 2019

Soffía vill hækka framlög til Íþróttasjóðs

Soffía Ámundadóttir er önnur konan til að setjast í stól formanns íþróttanefndar ríkisins. Hún segir mikilvægt að setja kraft í umræðuna um kynjajafnrétti í íþróttum og vill auka fjárframlög til íþrótta. 

„Við ætlum að einbeita okkur að nokkrum atriðum: Að jafna hlut kvenna í íþróttum. Við munum svo áfram setja börn af erlendum uppruna í forgang ásamt öðrum jaðarhópum, fötluðum, fólki sem afplánar dóma og fleiri sem eru ekki í kastljósinu,“ segir Soffía.

Í upphafi árs tók Soffía við sæti formanns Íþróttanefndar ríkisins af Stefáni Konráðssyni sem hafði verið formaður frá árinu 2014. Það er menntamálaráðherra hverju sinni sem skipar formann nefndarinnar til fjögurra ára í senn án tilnefningar. Soffía er yngst í nefndinni og önnur konan til að setjast í formannsstólinn á eftir knattspyrnukonunni Ásthildi Helgadóttur sem var settur formaður íþróttanefndar árið 2008.

 

Margt áhugavert í gangi

Soffía segir að þótt hlutverk nefndarinnar sé einkum að gera tillögur um fjárframlög til íþróttamála og úthlutun úr Íþróttasjóði séu fjölmörg önnur stór mál á borði hennar. Þar á meðal eru málefni þjóðarleikvangs og félagasamtaka og mótun nýrrar og uppfærðar íþróttastefnu sem ná á yfir árin 2019–2030. Það er talsvert lengra tímabil en fyrri stefnur hafa náð yfir. Til samanburðar var fyrri stefna í gildi árin 2011–2015. 

Ný og uppfærð íþróttastefna var kynnt á dögunum. 

 

 

Sjá: Stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum

Soffía segir tímalengdina gera það að verkum að nefndin þurfi að láta til sín taka. „Það er margt áhugavert í gangi,“ heldur Soffía áfram. „Nefndin á að endurspegla samfélagið. Það er ágæt kynjaskipting í íþróttanefndinni. En eftir samtal mitt við menntamálaráðherra um málið teljum við mikilvægt að kraftur verði settur í umræðuna um almennt kynjajafnrétti í íþróttum. Ég þekki þá hlið mála mjög vel eftir starf mitt sem þjálfari, það er að segja sem kona í karlaheimi. En ég þekki það líka sem foreldri barna í íþróttum,“ segir hún.

Soffía leggur áherslu á að sem formaður íþróttanefndar muni hún leitast eftir því að láta kveða að nefndinni. Þar sem nefndin eigi að fylgja eftir stefnu í íþróttamálum eigi hún að vera sýnileg. „Þetta er nefnd sem þarf að vera drífandi og á að hafa vigt. Við munum fylgjast með og laga til þær brotalamir sem við sjáum og kalla til ráðgjafa þegar þurfa þykir og hlusta á það sem fagfólk hefur að segja,“ segir Soffía og bætir við að meðal annars sem hún sé að gera um þessar mundir sé að skoða drög að íþróttastefnu landsins í samanburði við hin Norðurlöndin og hún muni skoða aðbúnað á landsbyggðinni, svo sem á Ísafirði.

„Maður þarf að grúska og mann þarf að langa til að gera starfið betra. Reynsla mín af íþróttamálum á Íslandi er sú að sama, að hvar mig ber niður er það allt mjög faglegt. Við erum með vel menntaða þjálfara og frábæran mannauð. En allt má skoða og við ætlum auðvitað að varpa ljósi á góða hluti. En fyrir öllu er að nefndin verði kröftug og öflug,“ bætir Soffía við.

 

Vill meira fjármagn í Íþróttasjóð

Þegar viðtalið var tekið hafði íþróttanefnd fundað þrisvar í febrúar til að ljúka úthlutun úr íþróttasjóði. Soffía vekur athygli á að fjármunum er úthlutað til þriggja flokka; til fræðslu, aðbúnaðar og til rannsókna. Í gegnum tíðina hafi mestu verið veitt í aðbúnað. Nú sé úthlutun dreift nokkuð jafnt á flokkana þrjá.

Soffía vill sjá breytingu á Íþróttasjóði: „Sama félagið sendir oft inn inn 6–10 umsóknir. Við viljum breyta fjölda þeirra og takmarka við eina frá hverju félagi. Ríkisstyrkirnir eru líka mjög lágir hér á landi. Íþróttasjóður er engin undantekning,“ segir Soffía en Íþróttasjóði bárust 109 umsóknir upp á 130 milljónir króna en þörfin hljóðar upp á eða um 20 milljónum króna á ári. Soffía segir þörf á að hækka þá upphæð.

„Sem formann langar mig að leita eftir því að hækka upphæðina umtalsvert. Þörfin er til staðar,“ segir Soffía, formaður íþróttanefndar.

 

Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér

Skinfaxi 1. tbl. 2018

Eldri tölublöð Skinfaxa