Fara á efnissvæði
25. apríl 2018

Starf sjálfboðaliðanna ber ávöxt á Ísafirði

„Fossavatnsgangan er orðin risaviðburður á Vestfjörðum. Það eru rosalega margir hér bæði keppendur og aðrir, fólk út um allan bæ að baka og svo verða sjálfboðaliðar út um alla heiði að hjálpa til. Nú er skíðafélagið að fá pening út úr Fossavatnsgöngunni og það er að stórum hluta að þakka öllum sjálfboðaliðunum sem taka þátt,“ segir Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfjarðar (HSV). 

Fossavatnsgangan hefst á fimmtudag með frjálsri aðferð og fjölskyldufossavatnsgöngu. Keppt er í lengri leiðum fram á helgi. Nú þegar eru skráðir rúmlega þúsund þátttakendur í allar leiðir. Forsvarsmenn göngunnar gera ráð fyrir að þátttakendur verði í kringum 1.100 enda eiga margir heimamenn enn eftir að skrá sig.

Fjöldi sjálfboðaliða kemur að vinnu við Fossavatnsgönguna og er gert ráð fyrir að um helgina muni um 100 manns verða að störfum.
Það er Skíðafélag Ísfirðinga sem heldur Fossavatnsgönguna en félagið er aðildarfélag HSV.

Fossavatnsgangan er keppnisgrein í skíðagöngu og hefur hún verið haldin árlega frá árinu 1935. Stór hluti þátttakenda nú kemur að utan en talið er að þeir séu nú um fimm hundruð eða í kringum helmingur þátttakenda. 

HSV er einn 29 sambandsaðila Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). 

Myndin hér að ofan er fengin með góðfúslegu leyfi af Facebook-síðu Fossavatnsgöngunnar.

 

Meira um Fossavatnsgönguna

Facebook-síða Fossavatnsgöngunnar