Starf skerðist hjá nærri öllu starfsfólki
Um fjórðungur starfsfólks Ungmennafélags Selfoss fer á hlutagreiðslur. Þjálfararnir eru hugmyndaríkir og halda iðkendum virkum með æfingum sem þeir fá með ýmsum hætti. „Við sóttum um hlutagreiðslur fyrir nær allt starfsfólk í meira en 50% starfshlutfalli hjá Umf. Selfoss þ.e. þar sem vinna viðkomandi hjá félaginu er þeirra aðalvinna,“ segir Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins. Hann, eins og aðrir framkvæmdastjórar íþrótta- og ungmennafélaga um allt land, stendur frammi fyrir því að skerða starfshlutfall þjálfara og starfsfólks á meðan á samkomubanni stendur enda íþróttahús lokuð meðan á því stendur og engar hefðbundnar æfingar í gangi. Í flestum tilvikum er skerðingin niður í 25% starfshlutfall.
Starfsmenn og verktakar íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka eiga rétt á hlutagreiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda.
Miðað við það geta starfsmenn íþróttafélaga, þjálfarar og aðrir á launaskrá viðkomandi félags sótt um hlutagreiðslur komi til skerts starfshlutfalls. Gert er ráð fyrir að þær geti numið frá 20–75% skerðingu á móti starfshlutfalli starfsmanna. Komi til skerðingar þarf starfsmaður að semja við yfirmann sinn og sækja að því loknu um greiðslur vegna minna starfshlutfalls.
Gissur segir að sótt hafi verði um fyrir 25 þjálfara og starfsmenn Umf. Selfoss af rúmlega rúmlega hundrað. Þeir eru þó í mismiklu starfshlutfalli.
„Það er ekki ljóst hvernig málið snýr að þeim þjálfurum sem eru í fullu starfi hjá öðrum atvinnurekanda. Ég geri ráð fyrir að það skýrist fljótlega,“ segir hann. Flestir þjálfarar sem skerðing nær til hafa minnkað við sig vinnu. Flestir vinna í nokkra tíma á dag og búa til heimaæfingar sem þeir senda iðkendum. Hann bætir við að þjálfarar á Selfossi hafi þar sem og víðar verið einkar hugmyndaríkir og haldið iðkendum virkum með æfingum í fjarfundabúnaði, spjallforritum í síma.
Fjallað er ítarlega um áhrif samkomubanns á íþróttastarf og COVID-19 í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Nýjasta tölublaðið - 1. tbl. 2020 - er aðgengilegt á vef UMFÍ.
Þú getur smellt hér og lesið allt blaðið: Lesa Skinfaxa