Fara á efnissvæði
27. apríl 2020

Starf Ungmennabúða UMFÍ á fullt skrið 4. maí

Starfsemi Ungmennabúða UMFÍ fer á fullt skrið þegar samkomubanni verður létt af skólastarfi 4. maí næstkomandi. 

UMFÍ átt í góðum samskiptum við yfirvöld og fundað með sóttvarnalækni og heilbrigðisyfirvöldum vegna samkomubanns og áhrifa þess á starfsemi sambandsaðila UMFÍ og helstu verkefni. UMFÍ hefur fengið staðfestingu frá Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Almannavörnum að samkvæmt ofangreindu geti starfsemi Ungmennabúða UMFÍ haldið áfram með eðlilegum hætti.

Í auglýsingu heilbrigðisráðuneytis frá 21. apríl síðastliðnum er fallið frá ýmsum hömlum sem áður voru settar á til að hefta útbreiðslu COVID-19 veirunnar, s.s. röskun á skólastarfi. Fjöldatakmarkanir og reglur um tveggja metra nálægðarmörk munu ekki eiga við um nemendur í grunnskólum. Í 8. grein auglýsingarinnar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er ennfremur sérsaklega tekið fram að takmarkanir eigi ekki við um íþrótta- og æskulýðsstarf barna á grunnskólaaldri.

Þrátt fyrir afléttingu verður að sjálfsögðu haldið uppi sértækum aðgerðum til að hefta útbreiðslu COVID-19, haldið úti auknum þrifum á sameiginlegum rýmum, hvatt til handþvottar og nemendur hvattir til að halda líkamlegri nánd í lágmarki. Jafnframt er sótthreinsandi spritt haft aðgengileg í almenningsrýmum eins og áður.

Við mælumst jafnframt til þess að sömu fullorðnu einstaklingar frá skólum viðkomandi nemenda verði með hópnum allan dvalartímann. Að auki eru upplýsingar um COVID-19 hafðar í sjónmáli í öllum almenningsrýmum svo þær fari ekki fram hjá neinum.

Við hlökkum til að sjá káta grunnskólanemendur í Ungmennabúðum UMFÍ!