Steinn Björgvin sæmdur gullmerki UMFÍ

Steinn Björgvin Jónasson var sæmdur gullmerki UMFÍ á þingi Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA), sem fram fór á dögunum. Merkið hlaut hann fyrir ómetanlegt framlag til íþróttastarfs á Austurlandi.
Þingið fór vel og var stjórnin endurkjörin, með Benedikt Jónsson í formannsætinu.
Fyrir þinginu lá tillaga um breytta deilingu lottófjármuna og var samþykkt að mynda hóp sem fari yfir málið.
Nokkuð var um heiðranir á þinginu. Unnur Óskarsdóttir fékk loks afhent starfsmerki en til stóð að afhenda henni það á þingi UÍA fyrir þremur árum. Þetta árið fékk til viðbótar Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi formaður UÍA og stjórnarmaður í UMFÍ, starfsmerki UÍA. Sigurður Óskar Jónsson, sem situr með Gunnar í stjórn UMFÍ, afhenti honum merkið.
Gunnar þótti öflugur á þingi UÍA, tók til máls, kom með sáttatillögur í flóknum málum og tók þær myndir sem hér fylgja.
Meira um Stein Björgvin
Steinn hefur helgað stóran hluta ævi sinnar íþróttahreyfingunni, sérstaklega í þágu Leiknis Fáskrúðsfirði. Frá árinu 1975 hefur hann verið lykilmaður í starfi félagsins, fyrst í knattspyrnuráði og síðar í frjálsíþróttaráði. Á árunum 1995 til 2002 starfaði hann einnig í stjórn Ungmennasambands Austurlands (UÍA), þar sem hann lagði sitt af mörkum til uppbyggingar íþróttastarfs í fjórðungnum.
Hans stærsta og mikilvægasta framlag var þó sem formaður Leiknis Fáskrúðsfirði, en hann gegndi því hlutverki í heil 20 ár, frá 2002 til 2022. Steinn hefur ávallt verið drifkraftur í starfi Leiknis, sýnt ómældan metnað, ósérhlífni og elju í þágu félagsins og íþróttahreyfingarinnar í heild.




