Fara á efnissvæði
10. janúar 2018

Stjarnan fær sakavottorð allra þjálfara

Sambandsaðilum UMFÍ er óheimilt að ráða einstakling til starfa sem hefur hlotið refsidóma vegna ofbeldisbrota, ávana- og fíkniefnabrota eða vegna kynferðisbrota. Skili starfsmaður ekki inn  sakavottorði með umsókn eða ráðningu þarf að óska eftir því hjá sýslumanni. Slíkt getur verið bæði tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir sambandsaðila en hvert sakavottorð kostar 2.500 krónur. Hægt er að óska eftir því að UMFÍ geri þetta fyrir sambandsaðila, félögunum að kostnaðarlausu. Nauðsynlegt er að undirrituð heimild fylgi vegna þessa og útfyllt eyðublað með helstu upplýsingum.

Stjarnan í Garðabæ er eitt þeirra félaga sem hefur nýtt sér þessa þjónustu sambandsaðila UMFÍ en Garðabær gerir þær kröfur að leiðbeinendur/þjálfarar og allir aðrir, sem starfa með æskufólki á vegum félagsins, uppfylli skilyrði æskulýðslaga um hreint sakavottorð.

Nýta sér þjónustu UMFÍ

„Stjórn Stjörnunnar ákvað árið 2014 að afla sakavottorða fyrir alla þjálfara félagsins. En við erum með um 400 þjálfara. Það væri erfitt fyrir okkur að fá sakavottorð þeirra allra sjálf, bæði tæki það tíma og yrði mjög dýrt. Það léttir mikið undir hjá okkur að nýta möguleikann á því að fá sakavottorð fyrir þjálfara og starfsfólk í gegnum þjónustumiðstöð UMFÍ,“ segir Ása Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Stjörnunnar.

Félagið fer kerfisbundið í verkið og hefur sótt um sakavottorð fyrir hverja deild Stjörnunnar í einu.  Nokkur tími mun því líða þar til búið verður að fara í gegnum félagið allt. Ása bendir á að ekki hafi komið upp tilvik hjá Stjörnunni þar sem dómur eða brot hafi komið óvænt upp í sakaskrá þjálfara. Spurð að því hvernig félagið myndi bregðast við því segir Ása að það yrði metið metið út frá verklagsreglum í samræmi við brotin.

 

Viðtalið við Ásu Ingu og umfjöllunin um Stjörnuna eru í 4. tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er hægt að nálgast á helstu íþróttastöðum landsins, í íþróttamiðstöðvum og sundlaugum. Blaðið er jafnframt hægt að nálgast hér á PDF-formi. 

Smella hér og lesa blaðið