Fara á efnissvæði
26. febrúar 2018

Stjórn FÁÍA fékk starfsmerki UMFÍ - UMFÍ tekur við starfi FÁÍA

Þáttaskil urðu á í starfsemi Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA) á föstudag. Á aðalfundi félagsins var samþykkt að leggja félagið niður. Þórey S. Guðmundsdóttir, formaður FÁÍA, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, skrifuðu í lok fundar undir viljayfirlýsingu um að UMFÍ haldi áfram að stuðla að heilsueflingu eldri aldurshópa um land allt.

Við sama tilefni afhenti Auður Inga stjórn FÁÍA starfsmerki UMFÍ. 

Nefnd eldri ungmennafélaga hjá UMFÍ tekur við verkefninu. Nefndin aðlagar markmið sín að breytingum í samfélaginu á hverjum tíma í þágu eflingar heilsu og eldri aldurshópa um land allt.

FÁÍA hefur starfað síðan árið 1985 og stjórn félagsins unnið sleitulítið að því að kynna fyrir eldri borgurum ýmis konar íþróttir og leiki og talað fyrir mikilvægi þess að eldri borgarar hreyfi sig reglulega. Á meðal annarra verkefna félagsins eru mót í boccía og pútti víða um land. Landsmót UMFÍ 50+ er á meðal þeirra verkefna sem varð til innan raða FÁÍA og UMFÍ tók upp.

Á myndinni hér að ofan eru þau (frá vinstri) Hjörtur Þórarinsson, Eygló Alexandersdóttir, Flemming Jessen, Anton Bjarnason, Þórey S. Guðmundsdóttir og Ragnheiður Sigurðardóttir, starfsmaður nefndar eldri ungmennafélaga. Á myndina vantar Kolfinnu Sigurvinsdóttur, sem var stödd erlendis.

Hjörtur samdi vísu í tilefni dagsins eins og honum er lagið:

 

Hlýja í vinarhöndum

er hamingja gömul og ný.

Stolt og þakklát við stöndum

með starfsmerki UMFÍ.

 

Á myndunum hér að neðan má m.a. sjá þær Þóreyju og Auði Ingu undirrita viljayfirlýsinguna og afhendingu starfsmerkisins.