Stjórn UMFÍ og Ungmennaráð UMFÍ funda saman í fyrsta sinn
Tímamót urðu í dag þegar Ungmennaráð UMFÍ og stjórn UMFÍ funduðu í fyrsta sinn saman. Mikil ánægja var með þennan sameiginlega fund.
Á fundinum ræddu stjórn og Ungmennaráð á hreinskilin hátt um störf beggja og með hvaða hætti ungmennaráð og stjórnin geta unnið nánar saman í framtíðinni.
Að sameiginlegum fundi loknum hélt stjórn UMFÍ hefðbundinn fund. Ungmennaráð UMFÍ fundaði hins vegar með Ragnheiði Sigurðardóttur, landsfulltrúa UMFÍ og starfsmanni ráðsins, við skipulagningu ungmennaráðstefnunnar Ungt fólk og lýðræði sem fram fer í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hörpu fimmtudaginn 17. september næstkomandi.
Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði leggur áherslu á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þar er lögð áhersla á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl. Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi.
Yfirskrift ráðstefnunnar er: Lýðræðisleg áhrif. Hvar, hvenær og hvernig getur ungt fólk haft áhrif?
Fjöldi ráðamanna hefur boðað komu sína á ráðstefnuna í Hörpu til þess eiga samtal við þátttakendur. Þar á meðal eru: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Andrés Ingi Jónsson þingmaður, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins og Sanna Magdalena, borgarfulltrúi. Fleiri eru á kantinum og mjög líklegt að fleiri bætist við eftir því sem nær dregur.
Meira um ráðstefnuna hér: Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði.
Hér má sjá myndir frá sameiginlegum fundi stjórnar UMFÍ og Ungmennaráðs UMFÍ.