Fara á efnissvæði
24. mars 2021

Stöndum saman gegn COVID 19

Þjálfarar íþrótta- og ungmennafélaga lærðu margt nýtt í fyrra. Nú er mikilvægt að nýta þekkinguna, segir Auður Inga hjá UMFÍ.  

„Við erum komin á sama stað og fyrir ári þegar allt íþróttastarf féll niður nánast á sömu dagsetningu og nú. Þá stigu þjálfarar og forsvarsmenn félaga upp og settu upp nýtt rafrænt fyrirkomulag. Þetta eru lausnir sem við þurftum að læra fljótt á. Nú verðum við að rifja þær upp, nýta kunnáttuna og þekkinguna sem varð til í fyrra,‟ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Auður segir að ýmislegt hafi gengið á í dag eftir að fréttirnar bárust um hertar sóttvarnaaðgerðir sem m.a. leiða til þess að íþrótta- og skólastarf í staðnámi fellur niður.
 
Eitt af stærstu einstöku verkefnum UMFÍ eru Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni. Þangað koma nemendur 9. bekkjar grunnskóla frá öllu landinu viku í senn. Hópurinn sem nú dvelur í búðunum þurfti að hafa snör handtök við að útvega rútu og setja upp fyrirkomulag svo allir verði komnir til síns heima fyrir miðnætti í kvöld. Búðirnar verða svo lokaðar á sama hátt og annað íþrótta- og æskulýðsstarf fram yfir páska.

 


 
„Þar eru mörg handtök og mikilvægt að vinna hratt í dag, eins og reyndar hjá öllum aðildarfélögum UMFÍ um allt land,‟ segir Auður Inga.
 
Hún líkir faraldrinum við æfingabúðir í þrautseigju og stundum reyni verulega á.
 
„Við minnum stjórnendur íþrótta- og ungmennafélaga á leið stjórnvalda um launagreiðslu launþega og verktaka sem voru með gildistíma fram á sumarið sem ætti að geta nýst nú,‟ bendir Auður á.
 

Fundað með menntamálaráðherra

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fundaði með Hauki Valtýssyni, formanni UMFÍ, Auði Ingu og öðrum stjórnendum í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi síðdegis í dag. Fundurinn einkenndist af samstöðu í því að komast í gegnum áskoranirnar og hafa börnin í fyrsta sæti. Fundargestir voru sammála um að aðgerðirnar nú eru stórmál sem ekki verði unnið nema í samvinnu.

 


 
„Við hvetjum til samstöðu í íþróttahreyfingunni. Við skulum spila þennan leik saman næstu þrjár vikurnar og hafa sigur að lokum,‟ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.