Stórt skref í jafnréttismálum hjá körfuknattleiksdeild Skallagríms
„Þetta er frábært framtak hjá körfuknattleiksdeildinni. Það eina rétta í stöðunni, stórt skref í jafnréttismálum í íþróttum og verður vonandi öðrum til eftirbreytni. Mér lýst mjög vel á þetta fyrirkomulag sem sagt var frá um helgina,“ segir María Júlía Jónsdóttir, sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) um þá ákvörðun aðalstjórnar körfuknattleiksdeildar Skallagríms, aðildarfélags UMSB, að jöfn skipting verði á öllum styrktar- og samstarfssamningum sem deildin gerir hverju sinni.
Fyrirkomulagið er einstakt og tryggir jafnræði á milli karla- og kvennaliðs Skallagríms og yngri flokka þegar kemur að úthlutun fjármagns sem aflað er frá styrktaraðilum. Fyrirkomulag eins og þetta er ekki í öðrum deildum aðildarfélaga UMSB. Ekki er heldur vitað hvort það tíðkist hjá öðrum félögum og deildum. Eftir því sem best er vitað er körfuknattleiksdeild Skallagríms með fyrstu íþróttafélögunum sem stígur þetta skref innan körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi.
Fram kemur á vef UMSB að þessi breyting sé í samræmi við ákvæði jafnréttisstefnu UMSB. Því sé það fagnaðarefni að sjá samning sem þennan enda líði iðkendum betur í umhverfi þar sem jafnrétti ríkir.