Fara á efnissvæði
23. júlí 2022

Strandblakvöllur lítur dagsins ljós á Selfossi

„Við erum búin að snyrta allt íþróttasvæðið, setja gervigras á opin svæði og gera íþróttasvæðið tilbúið fyrir Unglingalandsmótið. Starfsfólk og forsvarsfólk sveitarfélagsins hefur staðið sig afar vel og vill alltaf gera betur,“ segir Ásgeir Hilmarsson hjá PRO-görðum.

Á milli 5-6 starfsmenn hafa síðustu daga unnið hörðum höndum að gerð vallar fyrir strandblak og strandhandbolta aftan við Selfosshöllina á íþróttavellinum. Svæðið er 55 x 30 metrar á lengdina og rúmar þrjá velli. Allt svæðið er umkringd 300 brettum og hafa tugir vörubílar flutt um 500 rúmmetra af sandi á svæðið. Sandurinn kemur frá Eyrarbakka, sem er á HSK-svæðinu.

Ásgeir var í vikunni á fullu að slétta úr sandinum ásamt þeim Evu Björk Kristjánsdóttur skrúðgarðyrkjufræðingi, konu sinni, og Nökkva Þór, syni þeirra.

Ásgeir segir verkinu fljótlega lokið.

„Eftir helgina tyrfum við hliðarnar og setjum svo upp mörkin,“ segir hann.  

 

Börn og ungmenni á aldrinum 11 –18 ára geta tekið þátt í keppnisgreinum á Unglingalandsmóti UMFÍ. Skráning er á www.ulm.is og er opið fyrir skráningu til mánudagsins 25. júlí. Aðeins kostar 8.500 krónur fyrir þátttakanda 11-18 ára á mótið og getur sá eða sú skráð sig í eins margar greinar og viðkomandi langar til að taka þátt í. Inni í gjaldinu er innifalinn aðgangur að tjaldsvæði fyrir alla fjölskylduna og aðgangur á tónleika, í alla afþreyingu og fleira til.

Öll kvöld Unglingalandsmótsins verða tónleikar á tjaldsvæði mótsins og þar koma fram m.a. Birnir, Bríet, Stuðlabandið, Jón Jónsson og Frikki Dór, DJ Dóra Júlía og margir fleiri.

Hér má sjá fleiri myndir af framkvæmdinni