Fara á efnissvæði
22. júní 2023

Styrkur til Ungmennaráðs

Ungmennaráð UMFÍ hefur hlotið styrk úr Erasmus+ fyrir ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði árið 2023. Tilkynnt var um styrkúthlutunina formlega í gær. Erasmus + er hluti af styrkjaáætlun Evrópusambandsins.

Upphafsfundur fyrir styrkþega fór fram í gær þar sem farið var yfir hagnýt ráð og upplýsingar fyrir verkefnastjóra verkefna. Kolbeinn Þorsteinsson, fulltrúi Ungmennaráðs UMFÍ, sat fundinn fyrir hönd ráðsins. 

Ungt fólk og lýðræði

Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði leggur áherslu á að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þar er lögð áhersla á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíð.

Ráðstefnan hefur verið haldin árlega frá árinu 2009 og hefur því fest sig í sessi á meðal mikilvægustu viðburða fyrir ungt fólk á Íslandi.

Í ár verður ráðstefnan dagana 22. - 24. september í húsnæði Skólabúða UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði.

Yfirskrift ráðstefunnar er: Að jörðu skaltu aftur verða. Það vísar til umhverfismála og þau áhrif sem ungt fólk getur haft á málaflokkinn. 

Ungmennaráð UMFÍ

Ungmennaráð UMFÍ er skipað tíu ungmennum á aldrinum 16 - 23 ára sem koma víðsvegar að af landinu og búa yfir ólíkri þekkingu og reynslu. Hlutverk ráðsins er vera stjórn UMFÍ til ráðgjafar varðandi málefni ungs fólks. Framfylgja stefnu UMFÍ varðandi ungt fólk og standa fyrir viðburðum fyrir ungt fólk.