Fara á efnissvæði
21. janúar 2022

Styttist í Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi

„Undirbúningur er í fullum gangi í þriðja sinn enda hillir í að nú verði loksins hægt verði að halda Landsmót UMFÍ 50+,“ segir Flemming Jessen, formaður framkvæmdanefndar mótsins í Borgarnesi.

Landsmót UMFÍ 50+ átti að halda í Borgarnesi sumarið 2020. Því var hins vegar frestað vegna útbreiðslu COVID-19 faraldursins. Aftur var mótinu frestað í fyrra og er þriðja atlaga gerð að því nú.

Mótið verður haldið í Borgarnesi dagana 24. – 26. júní.  Undirbúningsvinna er í gangi og verða frekari upplýsingar birtar hér á heimasíðu mótsins. 

Mótið er auglýst í sérstöku fylgiblaði Morgunblaðsins í dag um fólk á besta aldri.

 

 

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri keppni, hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman. Mótið hefur farið fram árlega síðan 2011.

Mótið er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri.  Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag, allir geta tekið þátt og á sínum forsendum. Þátttökugjald er aðeins 4.900 kr.

Á mótinu verða 18 greinar í boði. Þar á meðal eru boccía og ringó en líka staurakast, pílukast, gröfufimi, götuhlaup, körfubolti (3:3), pútt og margt fleira.

 

 

Flemming bendir á að vissulega hafi orðið einhverjar breytingar á dagskrá mótsins frá í fyrra og því geti hún breyst að einhverju leyti. Stefnt er að því að endanleg dagskrá liggi fyrir í apríl.  

Nánar má lesa um Landsmót UMFÍ 50+, sjá dagskránna þær greinar sem eru í boði á www.umfi.is.

Þú getur líka smellt hér: Landsmót UMFÍ 50+