Fara á efnissvæði
13. janúar 2021

Sveifla í skráningum iðkenda eftir landssvæðum

Dregið hefur úr þátttöku barna 10 ára og eldri í skipulögðu íþróttastarfi hér á landi. Þátttakan hefur ekki verið minni í þrjú ár. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, segir í umfjöllun RÚV um málið æfingabann vegna COVID-faraldursins líklegustu skýringuna.

Fram kom í umfjöllun RÚV að íþróttahreyfingunni hefur verið fyrirskipað að stöðva æfingar og keppnir nokkrum sinnum vegna farsóttarinnar. Forsvarsfólk hennar hafi haft áhyggjur af því að iðkendur, sér í lagi ungt fólk, sé að flosna upp úr starfi vegna þess. Samkvæmt þátttökuskráningum úr Nóra-skráningarkerfinu, sem lang flest íþróttafélög nota, hefur iðkendum undir 18 ára fækkað um þrjú þúsund milli ára. 2019 voru samtals 53 þúsund iðkendur skráðir, en um áramótin núna voru 50 þúsund skráðir. Brottfallið er meira hjá strákum en stelpum.

„Auðvitað höfum við líka heyrt raddir um það að það séu börn og ungmenni sem eru að mæta á æfingar sem eru ekki búin að ganga frá skráningum en umfangið er það mikið að það skýrir ekki allt,“ sagði Auður Inga í samtali við RÚV.

Í umfjölluninni er jafnframt áréttað að íþróttafélögin skila opinberum tölum um þátttöku í apríl, en íþróttahreyfingin hefur fylgst með þróuninni í skráningarkerfinu. 

Stór hluti unglinga hefur ekki mátt æfa í þrjá mánuði. 

„Þetta er sá aldurshópur sem hefur verið lengst frá skipulögðum æfingum þannig það þarf ekkert að koma okkur á óvart að það er minnst skráning hjá þeim. Það er stórt og viðamikið verkefni á landsvísu að ná árangri í því að ná þeim aftur inn í starfið,“ sagði Auður Inga og fagnaði því að þessi aldurshópur geti byrjað að æfa og keppa á ný í dag.

 

Mismunandi eftir landssvæðum

Í Nóra skráningarkerfinu má sjá gögn um stöðuna miðað við áramótin í hópi iðkenda 0-18 ára. Þar má greina fækkun á heildarskráningum miðað fyrri ár og fjölgun í yngri aldurshópum.

Þó er ekki svo að iðkendum hafi fækkað um landið allt. Breytingin er misjöfn eftir landssvæðum og þarf að skoða hvert svæði fyrir sig. Til viðbótar er mögulegt að þótt iðkendur hafi mætt á æfingar þá eigi íþrótta- og ungmennafélög enn eftir að skrá þá. Þetta eru engu að síður samanburðarhæfar tölur milli ára og gefa vísbendingar um þróun sem gefa vissulega tilefni til þess að skoða þær nánar.